Deildu hart í þingsal

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar

Til harka­legra orðaskipta kom á milli Stein­gríms J. Sig­fús­son­ar fjár­málaráðherra og Sturlu Böðvars­son­ar Sjálf­stæðis­flokki á Alþingi í dag. Til­efnið voru skrif Sturlu í Frétta­blaðinu í dag þar sem hann seg­ir rík­is­stjórn­ina hafa kom­ist til valda í skjóli of­beld­is­fullra aðgerða gegn Alþingi.

„Þetta er með því allra lág­kúru­leg­asta og fyr­ir­lit­leg­asta sem ég hef séð ís­lensk­an stjórn­mála­mann lengi reyna,“ sagði Stein­grím­ur og vitnaði í grein Sturlu þar sem hann sagði einnig að ráðherra Vg hefði hreykt sér af að hafa staðið að baki mót­mælaaðgerðunum og marg­ir telji að þær hafi verið skipu­lagðar í skjóli Vg.

„Þetta eru ein­hver öm­ur­leg­ustu um­mæli sem ég hef lengi séð frá stjórn­mála­manni. Þetta eru ómaga­orð, þetta eru órök­studd­ar og rang­ar dylgj­ur um starfs­bræður hátt­virts þing­manns í stjórn­mál­um. Og lýsi sér­stakri skömm  minni á því að Sturla Böðvars­son, hátt­virt­ur þingmaður og fyrr­ver­andi for­seti Alþing­is, skuli leyfa sér mál­flutn­ing af þessu tagi,“ sagði Stein­grím­ur og bætti við að hann lýsti skömm sinni á þess­um mál­flutn­ingi.

Sturla sagði, að sann­leik­an­um yrði hver sár­reiðast­ur, það sannaðist þegar hlustað væri á gíf­ur­yrði fjár­málaráðherra. Vissu­lega hefði mikið mætt á Alþingi í haust og vet­ur og alþing­is­menn hefðu lang­flest­ir staðið bæri­lega í fæt­urna og feng­ist við þau miki­vægu verk­efni, sem þyrfti að vinna á Alþingi. En gíf­ur­yrði í garð ein­stakra þing­manna vektu at­hygli. Sagðist Sturla hvetja Stein­grím að kynna sér bók­un for­sæt­is­nefnd­ar frá í janú­ar.

Stein­grím­ur kom á nýj­an leik í ræðustól og sagði að sér væri ná­kvæm­lega sama um hvað væri bókað í for­sæt­is­nefnd Alþing­is. „Ég sem formaður Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs veit fyr­ir hvað sá flokk­ur stend­ur og veit að hann hef­ur ætíð og alltaf laggst gegn hvers kyns notk­un of­beld­is,“ sagði hann. „Það er al­ger­lega óboðleg­ur óhróður sem er beint nán­ast aðheilli rík­is­stjórn og stjórn­mála­flokki og að rík­is­stjórn hafi kom­ist til valda í skjóli of­beldsifullra aðgerða gegn Alþingi. Þetta er svo yf­ir­gengi­leg­ur mál­flutn­ing­ur, að hann dæm­ir sig al­ger­lega sjálf­ur,“ sagði Stein­grím­ur. „Þetta er ósann­ur og ómak­leg­ur og óviðeig­andi ór­hróður, sem er hátt­virt­um þing­manni til sér­stakr­ar skamm­ar,“ bætti hann við.

Sturla sagði að Stein­grím­ur hefði ít­rekað staðið í ræðustóli á þing­inu og notað orðbragð, fram­göngu og lát­bragð sem eng­inn ann­ar þingmaður hefði leyft sér. „Svo úr háum söðli hef­ur hæsti­virt­ur þingmaður og ráðherra ekki að detta."

Sturla Böðvarsson.
Sturla Böðvars­son.
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert