Gistinætur á hótelum í janúar síðastliðnum voru 54.800 en voru 58.500 í sama mánuði árið 2008. Gistinóttum fækkaði í öllum landshlutum nema á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem gistóttum fjölgaði um 6% miðað við janúar 2008.
Hlutfallslega fækkaði gistinóttum mest á Austurlandi úr 1.400 í 650 eða um 54%. Gistinætur á Suðurlandi voru 2.700 í janúar og fækkaði um 10% frá fyrra ári, á Norðurlandi voru 1.700 gistinætur sem er 6% minna en í janúar 2008. Gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði einnig 6%, voru 45.400 samanborið við 48.200 í janúar 2008, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands.
33% færri Íslendingar en 6% fleiri útlendingar
Fækkun gistinátta á hótelum í janúar má eingöngu rekja til Íslendinga, gistinóttum Íslendinga fækkaði um 33%, en gistinóttum útlendinga fjölgaði um 6% milli ára.