Frjálslyndi flokkurinn greiði Margréti laun

Margrét Sverrisdóttir kemur til landsþings Frjálslynda flokksins í janúar 2007.
Margrét Sverrisdóttir kemur til landsþings Frjálslynda flokksins í janúar 2007.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Frjálslynda flokkinn til að greiða Margréti Sverrisdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra flokksins, 614 þúsund krónur en um er að ræða ógreidd laun.

Deilan snérist um hvenær Margréti var sagt upp störfum hjá flokknum og hver réttur hennar til launa í uppsagnarfresti hefði verið. Margrét krafðist þriggja mánaða launa en niðurstaða dómsins var að hún ætti að fá laun fyrir einn mánuð.

Aðdragandi málsins er sá, að Margrét var framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins og framkvæmdastjóri þingflokks flokksins frá árinu 1998 fram í dedsember 2006 en þá var ákveðið að hún færi í launað leyfi.  Í nóvember 2006 hófst undirbúningur fyrir landsþing Frjálslyndra sem fara átti fram í lok janúar árið eftir. Átök voru innan flokksins um þetta leyti vegna viðræðna við flokkinn Nýtt afl um sameiningu.

Guðjón A. Kristjánsson, formaður flokksins, skrifaði Margréti bréf 30. nóvember 2006 og spurði þar hvort hún hygðist bjóða sig fram til að leiða lista Frjálslynda flokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningar 12. maí 2007. Svo segir í bréfinu „Með vísan í samtal okkar á liðnu sumri um að þú gætir ekki verið framkvæmdastjóri þingflokks og frambjóðandi á sama tíma, tel ég eðlilegt ef þú sækist eftir að leiða lista að þá liggi fyrir að störfum þínum ljúki sem framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins í síðasta lagi 1. mars næstkomandi. Þar sem ég hef ekki heyrt neitt ákveðið um ákvörðun þína er nú spurt þegar kominn er 30. nóvember. Óska ég svars við þessari spurningu fyrir klukkan 20 í kvöld.“

Margrét svaraði með tölvupósti sama dag. Þar sagði hún meðal annars að hún sæi ekki að neitt væri öðruvísi þennan dag en þegar flokkurinn bauð síðast fram á landsvísu og hún gegndi stöðu framkvæmdastjóra jafnframt því að vera í kosningabaráttu.

Guðjón svaraði því til í tölvupósti, að hann hefði skilið stefnanda svo hún hygðist sækjast eftir að leiða lista í Reykjavík í næstu Alþingiskosningum. Þá stendur í skeyti hans: „Við höfum engan vilja til þess að brjóta á þér neinn rétt sem fylgir starfsaldri þínum fyrir Frjálslynda flokkinn. Ef þú telur að uppsagnarfrestur þinn sé lengri en þrír mánuðir og það reynist rétt vera þá verður þér að sjálfsögðu, greitt það sem þú átt rétt á sem starfsmaður þingflokksins. Uppsagnarfrestur þinn hefst frá og með desember 2006 og réttur þinn til sumarfrís á launum er að sjálfsögðu til viðbótar uppsagnarfrestinum.“

Nefnd þriggja manna var í kjölfarið falið að leita sameiginlegrar niðurstöðu. Miðstjórnarfundur flokksins var haldinn 13. desember 2006. Þar fóru fram umræður um uppsögn Margrétar og tillögu sáttanefndar. Sú tillaga, að Margrét færi í launað leyfi fram yfir landsþing Frjálslynda flokksins 27.-28. janúar 2007 var samþykkt. Margrét taldi að á fundinum hafi verið ákveðið að draga uppsögn hennar til baka.

Landsþingið var háð 27.-28. janúar 2007. Þar bauð Margrét sig fram í embætti varaformanns en náði ekki kjöri. Hún gekk úr Frjálslynda flokknum 29. janúar og leysti jafnframt  Ólaf F. Magnússon af sem aðalborgarfulltrúi F-listans frá janúar 2007.

Margrét frétt greidd laun fyrir janúar 2007. Héraðsdómur segir, að  talið verði að Margréti hafi verið sagt upp störfum frá og með 1. desember 2006 og óumdeilt sé að hún hafi átt þriggja mánaða uppsagnarfrest. Því hafi hún átt að fá greidd laun fyrir febrúar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert