Baldvin Johnsen, fyrrverandi fjárreiðustjóri Ísfélags Vestmannaeyja sem sagt var upp í vikunni ásamt Ægi Páli Friðbertssyni, framkvæmdastjóra félagsins hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar um starfslokin. Þar segir m.a. að hann hafi ekki haft vald til að taka endanlegar ákvarðanir um gjaldeyrisvarnasamninga.
Baldvin segir að í samræmi við starfslýsingunni hafi „allir samningar varðandi gjaldeyrisvarnir félagsins [verið] gerðir með vitund og samþykki framkvæmdastjória og/eða fjármálastjóra. Frumkvæði að gerð samninga var ýmist mitt, fjármálastjóra eða framkvæmdastjóra. Í starfi mínu fyrir Ísfélagið var ég ekki prókúruhafi fyrir félagið.“
Þá segir í yfirlýsingunni að Baldvin hafi útbúið drög að stefnu félagsins í þessum málum og komið þeim drögum til framkvæmdastjóra til frekari afgreiðslu fyrir stjórn félagsins. „Mér vitanlega markaði stjórn félagsins enga stefnu í þessum málum á þeim tima sem ég starfaði hjá félaginu. Af ofangreindu er ljóst að ég hafði ekki endanlegt ákvörðunartökuvald þegar kom að gerð þessara samninga og ég get þess vegna ekki hafa farið fram yfir neinar heimildir í þeim efnum eins og fram hefur komið í fjölmiðlum.“
Baldin segist aldrei hafa átt bein samskipti við stjórn félagsins, hann hafi aldrei setið stjórnarfund og því ekki verið kunnugt um hvaða mál voru tekin fyrir á þeim fundum. Upplýsingagjöf til stjórnar hafi verið hlutverk næstu yfirmanna, fjámálastjóra og framkvæmdastjóra.
„Hvað hugsanleg mistök í starfi varðar þá hef ég án efa gert sömu mistök og allir þeir sem treystu á að bankakerfið myndi starfa áfram í sömu mynd og það hafði gert á undanförnum árum. Ég axla þá ábyrgð með því að missa starfið en ég er ekki sammála þeim orðum Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar stjórnarformanns Ísfélagsins að ég hafi farið út fyrir heimildir félagsins eða vanrækt upplýsingagjöf til stjórnar og vísa ég um það til þess sem hér kemur fram að ofan.“