Helstu götur rykbundnar í nótt

Svifryk getur verið mikið í Reykjavík
Svifryk getur verið mikið í Reykjavík Júlíus Sigurjónsson

Helstu umferðargötur í Reykjvík verða rykbundnar í nótt til að koma í veg fyrir að svifryk fari yfir heilsuverndarmörk á morgun. Í dag mældist styrkur svifryks við heilsuverndarmörk, enda hafa aðalumferðargötur þornað í dag og ryk þyrlast upp af þeim að sögn Önnu Rósu Böðvarsdóttur heilbrigðisfulltrúa Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar.

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur samþykkti í vikunni viðbragðsáætlun um loftgæði í borginni og er þessi tilraun í samræmi við hana. Kjöraðstæður verða fyrir sviryksmyndun í Reykjavík á morgun og næstu daga samkvæmt tilkynningu frá borginni, þ.e. kalt, logn og þurrviðri. Þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri ættu því að forðast helstu umferðaræðar borgarinnar þessa daga.

Starfsmenn borgarinnar munu því rykbinda helstu umferðargöturnar í von um að takmarka áhrifin. Rannsóknir frá Norðurlöndunum sýna að rykbinding getur dregið úr svifryksmengun um allt að 35%, en heilsuverndarmörk svifryks eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á heimasíðu Reykjavíkurborgar, en í mars hafa svifryksdagar oft reynst margir. Til að draga úr mengun er ástæða til að hvetja fólk til að ganga og hjóla meira, nota strætisvagna, samnýta bíla og hvíla bifreiðar á nagladekkjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert