Hlutfall bolfisks á borð við ýsu og þorsk í fæðu hrefnu reyndist mun hærra í nýlegum rannsóknum en það mældist áður. Hins vegar var minna af átu og loðnu í fæðu hrefnunnar en áður. Stærð bráðar hrefnunnar var allt frá 1-2 sm langri átu til 90 sm langs þorsks.
Þetta kom fram í rannsókn Hafrannsóknastofnunarinnar á fæðuvali hrefnu og breytingum á því.
„Meginniðurstaðan er sú að hrefnan í kringum landið borðar verulega mikið af fiskmeti og meira en við ætluðum,“ segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar.
Hópur sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar, undir forystu Gísla Víkingssonar, kynnti á laugardag fyrstu niðurstöður rannsókna á magainnihaldi og orkubúskap hrefnu. Í ágripi með niðurstöðunum segir, að heildarafrán hrefnustofnsins við Ísland sé talið vera um 2 milljónir tonna á ári, sem er um þriðjungur af heildarafráni þeirra 12 hvalategunda sem halda sig reglulega á íslensku hafsvæði.
„Miðað við fyrri rannsóknir einkenndist fæðusamsetningin nú af mun hærra hlutfalli af ýsu, þorski og öðrum tegundum bolfisks. Einnig var hlutfall sandsílis í fæðunni hátt, sérstaklega fyrri hluta tímabilsins. Hins vegar var minna af átu og loðnu en áður. Stærð bráðar var mjög breytileg, allt frá 1-2 sm átu til 90 sm (10 ára) þorsks. Talsverður breytileiki var í fæðusamsetningu eftir svæðum við landið og einnig sterkar vísbendingar um breytingar á fæðusamsetningunni yfir rannsóknartímabilið,“ segir í skýrslunni.
Jóhann Sigurjónsson segir að farið verði í endurtalningu á strandsvæðinu í sumar til að fá betri upplýsingar um fjölda hrefnu við landið, sem hafi áhrif á mat á heildarfæðunámi.