Ísland hrunin frjálshyggjutilraun

Stefán Ólafsson.
Stefán Ólafsson.

„Hér á landi eru ein­hverj­ir rót­tæk­ustu frjáls­hyggju­menn sem fyr­ir­finn­ast á Vest­ur­lönd­um,“ sagði Stefán Ólafs­son, pró­fess­or í fé­lags­fræði við Há­skóla Íslands, á fundi Sam­fylk­ing­ar­fólks á Hót­el Borg í kvöld. Umræðuefnið var skatta­mál og lýsti Stefán þróun í þeim mál­um frá 1995 til 2007, bæði hvað varðar hlut­deild þjóðfé­lags­hópa í heild­ar­tekj­um fjöl­skyldna í hverj­um mánuði og skatt­byrði á mis­mun­andi tekju­hópa.

Á meðal þess sem Stefán lýsti var sú hlut­deild sem tíu rík­ustu pró­sent­in af Banda­ríkja­mönn­um höfðu af heild­ar­tekj­um fólks í Banda­ríkj­un­um. Lýsti hann því hvernig sú hlut­deild var um 40% árið 1917 en hækkaði í um 50% fram að krepp­unni miklu sem hófst árið 1929. Frá 1945 til 1980 var hlut­deild­in nokkuð stöðugt í kring­um 35%, en eft­ir 1980 fór hún að rísa aft­ur og náði um 50% á síðasta ári. Stefán sagði ekki til full­nægj­andi gögn fyr­ir Ísland langt eft­ir en tók fram að árið 1993 voru rík­ustu 10 pró­sent hjóna á Íslandi með um 19% af heild­ar­tekj­um hjóna í land­inu. Árið 2007 var þetta hlut­fall orðið 40% að sögn Stef­áns.

Stefán til­tók einnig að árið 1993 hefði rík­asta eina pró­sentið af ís­lensk­um hjón­um haft um 4,2% af heild­ar­tekj­um hjóna. Það hlut­fall hafi hins veg­ar verið 19,8% árið 2007. Rík­ustu tíu pró­sent­in hafi farið úr því hafa 21,8% heild­ar­tekn­anna í að hafa 39,4% þeirra.

Á sama tíma hafi því all­ir aðrir, þ.e. hin 90 pró­sent­in, farið úr því að hafa 78,2% af heild­ar­tekj­un­um í að hafa 60,6% hlut­deild í þeim.

„Ísland var frjáls­hyggju­tilraun heims­ins á 10. ára­tugn­um,“ sagði Stefán. Sú til­raun hafi nú hrunið yfir þjóðina.

Stefán sagði einnig að rík­asta eina pró­sent fólks á Íslandi hafi á ár­inu 2007 haft að jafnaði 18,2 millj­ón­ir í tekj­ur á mánuði. Það séu 615 fjöl­skyld­ur og því sé mik­il­vægt að muna að það hafi ekki aðeins verið í kring­um þrjá­tíu menn sem höfðu of­ur­laun hér á landi. Á sama tíma voru meðal­tekj­ur heim­ila hér á landi 657.000 krón­ur.

Stefán talaði á mál­fundi sem þingmaður­inn Stein­unn Val­dís Óskars­dótt­ir boðaði til, en þar hélt einnig ræðu Indriði H. Þor­láks­son, ráðuneyt­is­stjóri í fjár­málaráðuneyt­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka