Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans, krafði Óskar Bergsson, formann borgarráðs, skýringa á leigusamningi borgarinnar á Höfðatorgsreit og hvenær ákvörðun var tekin um aukið byggingarmagn á Höfðatorgsreit en þar byggir byggingafélagið Eykt háhýsi.
„Á síðasta borgarráðsfundi, fimmtudaginn 26. febrúar sl., var spurt um ákvarðanir um aukið byggingarmagn og skuldbindandi leigusamning borgarinnar á Höfðatorgsreit og aðkomu tveggja borgarfulltrúa Framsóknarflokksins að málinu. Formaður borgarráðs sleit fundi skömmu síðar og neitaði að fyrirspurnin yrði færð til bókar. Því er spurt á ný:
Hvenær var tekin ákvörðun um um skuldbindandi leigusamning fyrir milljarða króna og aukið byggingarmagn á Höfðatorgsreit?
Hver var aðkoma þáverandi borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa Framsóknarflokksins, þeirra Björns Inga Hrafnssonar og Óskars Bergssonar, að þessum málum?
Í hvaða ráðum og nefndum borgarinnar sátu þessir sömu kjörnu fulltrúar Framsóknarflokks á fyrra valdatímabili Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í borginni og hvaða stöðu sköpuðu þessar nefndasetur fyrir fulltrúa Framsóknarflokksins til að hafa áhrif á framgang þessa dýra leigusamnings, sem og að hafa áhrif á aukið byggingarmagn á Höfðatorgi?," að því er sagði í fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar í morgun.