„Það er í alla staði frekar gerræðislegt að valdaflokkarnir séu að véla um breytingar á svona löggjöf akkúrat á meðan verið er að vinna fyrir kosningar sem eru haldnar með mjög stuttum fyrirvara,“ segir Bjarni Harðarson, frambjóðandi L-listans á Suðurlandi um stjórnarfrumvarp stjórnarflokkanna um persónukjör sem lagt hefur verið fram á þingi. Bjarna líst illa á frumvarpið og hefur kvartað til Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.
„Ég tel fyrst og fremst að það yrði nýjum og fjárvana framboðum sem eru að stíga sín fyrstu skref enn erfiðara við framboð þegar kosningareglur eru ekki skýrar,“ segir Bjarni. „Í öðru lagi hef ég bent á að það hafa engir nema gömlu fjórflokkarnir þann mannafla sem þarf til þess að tefla fram í hverju kjördæmi 20 mönnum sem allir væru tilbúnir til að setjast í fyrsta sæti. Ég tel í rauninni að þess vegna séu fjórflokkarnir þarna að koma ár sinni betur fyrir borð þvert ofan í það sem þeir þykjast vera að gera.“
Þannig séu lagabreytingar um persónukjör nú engan veginn eins lýðræðislegar og þær kannski hljómi. Bjarni segist eftir sem áður vera hlynntur persónukjöri í sjálfu sér, en ekki með þessum hætti. Hann segir viðbrögð innan ÖSE gefa til kynna að þar finnist mönnum málið athyglisvert.
„Mér var tjáð að þeir muni ræða þetta við stjórnvöld. Þeir eru að skoða það núna hvort þeir muni senda hér menn til að vera viðstaddir kosningarnar, og ég á von á því að það að hér skuli núna vera þannig stjórnarfar að menn vilji breyta kosningareglum tveimur til þremur vikum fyrir kosningar, það ýti nú heldur undir það að ÖSE vilji senda hingað eftirlitsmenn. Því þetta myndi ekki flokkast undir þann stöðugleika sem ÖSE hvetur til.“ Slíkur stimpill sé ekki það sem Ísland þurfi á að halda ofan á allt annað.