Fréttaskýring: Reynt að sporna við misnotkun á bótum

Vinnumálastofnun mun samkvæmt nýju frumvarpi Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur félagsmálaráðherra fá auknar heimildir til að kanna hagi umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Grunur er uppi um að fólk hafi verið að misnota bæturnar enda hefur ekkert kerfi verið fundið upp á Íslandi sem fólk hefur ekki reynt að misnota.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, ítrekar að þessi grunur beinist einungis að litlum hópi þeirra rúmlega 16 þúsund einstaklinga, sem eru á atvinnuleysisskrá. En Gissur bendir ennfremur á að þetta geti orðið dágóðar upphæðir ef ekkert sé að gert.

Atvinnulausu fólki hefur fjölgað geysilega. Mestöll orka starfsfólks Vinnumálsstofnunar hefur farið í það að tryggja þessu fólki framfærslu. Nú hefur hægst um í nýskráningum og starfsfólkið getur snúið sér að því að tryggja að allt fari fram eftir settum reglum.

Samkeyrt við nemendaskrár

Eitt af því sem hefur verið til skoðunar er hvort fólk á atvinnuleyisskrá stundi nám í skólum landsins og þiggi atvinnuleysisbætur í stað þess að vera á námslánum. Að sögn Gissurar skrifaði Vinnumálastofnun öllum háskólum bréf og óskaði eftir því að fá nemendaskrár til að samkeyra þær við atvinnuleysisskrána. Allir háskólarnir, að Háskóla Íslands undanskildum, hafa sent inn slíkar skrá. HÍ, sem er langfjölmennasti skólinn, taldi sig þurfa að fá leyfi Persónuverndar og er málið í því ferli núna.

Að sögn Gissurar hafa til þessa komið upp 120 nöfn úr samkeyrslunni, og verða mál þeirra skoðuð sérstaklega. Reiknar Gissur með því að nöfnin verði á þriðja hundrað þegar búið verður að samkeyra nemendaskrá Háskóla Íslands. Hann bendir á að búið sé að rýmka reglur til að auðvelda atvinnulausu fólki að sækja námskeið af ýmsu tagi hjá símenntunarmiðstöðvum.

Annar hópur, sem verður skoðaður sérstaklega, er sjálfstætt starfandi atvinnurekendur. Með lagabreytingu, sem gerð var í nóvember, var þessum hópi heimilað að sækja um atvinnuleysisbætur, ef samdráttur varð í rekstri. Fjölgað hefur gífurlega í þessum hópi, eða úr 7 í nóvember í 586 í janúar. Tölur fyrir febrúar eru ókomnar.

Gissur segir að Vinnumálsstofnun sé að bregðast við grun um að fólk í sjálfstæðum atvinnurekstri skrái sig atvinnulaust en haldi engu að síður áfram að vinna. Þetta fólk þarf eins og aðrir að stunda atvinnuleit og sækja námskeið og önnur úrræði, sem boðið er upp á.

Slök mæting á námskeið

„Við höfum verið að boða þennan hóp á námskeið en mætingin hefur því miður verið slök. Hugsanlega er fólkið svo upptekið við vinnu að það hefur ekki tíma til að sækja námskeiðin,“ segir Gissur.

Þriðji hópurinn er fólk sem skráir sig atvinnulaust, mætir reglulega á námskeið og önnur úrræði en er samt að vinna „svart“. Að sögn Gissurar er þetta lítill hópur og sá sem erfiðast er að ná til.

„Ég vil ítreka að 99% þeirra einstaklinga sem eru á atvinnuleysiskrá er fólk sem virkilega þarf á þessari framfærslu að halda og er að gera allt rétt. En það er alltaf nöturlegt að vita til þess að fólk reyni að misnota kerfið,“ segir Gissur Pétursson.

Greiða sektir

EF sannast að fólk misnotar atvinnuleysisbótakerfið er hægt að krefja það um endurgreiðslu og að auki þarf það að greiða sektir. Þá getur viðkomandi misst rétt til atvinnuleysisbóta í allt að tvö ár.

Vinnumálastofnun hefur nú þegar skrifað nokkrum einstaklingum bréf og krafið þá um frekari skýringa á þeirra högum. Hún er opinber stofnun og þarf að fara að settum reglum um andmælarétt og annað slíkt. „Hér er um að ræða framfærslu fólks svo við verðum að vera með 100% staðfestingu á því að verið sé að misnota kerfið. En ef menn mæta ekki í viðtöl og boðuð úrræði og geta ekki gefið fullnægjandi skýringar á því er komin upp önnur staða,“ segir Gissur Pétursson.

Hann segir að heilmikil vinna sé í þessu fólgin og skoða þurfi hvert mál mjög gaumgæfilega.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert