Slepptu tækifæri til að opna nefndarfundi

Sturla Böðvarsson.
Sturla Böðvarsson.

Ekki var sérstaklega rætt um að störf rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið yrðu opnari en lögin kveða á um, þegar frumvarpið var samið, að sögn Sturlu Böðvarssonar, fyrrv. forseta Alþingis. Hann átti frumkvæði að undirbúningi frumvarpsins í samvinnu formanna flokkanna.

 „Lokaskýrsla nefndarinnar verður öllum opin og málið lagt fyrir þingið,“ segir hann. ,,Við völdum þá leið að setja sérstök lög fremur en að velja þingnefndarleiðina. Það gerðum við með það í huga að reyna að hafa þetta eins ólitað af stjórnmálastarfinu og kostur væri á.“

Á síðasta ári var opnað fyrir þann möguleika í þingsköpum að fundir í nefndum Alþingis þar sem gestir sitja fyrir svörum, fari fram fyrir opnum tjöldum og í beinni útsendingu fjölmiðla. Sturla beitti sér fyrir þessu með það að markmiði að styrkja eftirlitshlutverk þingsins.

„Þessi heimild að halda opna nefndafundi með sjónvarpsútsendingu og að viðstöddum blaðamönnum, er hluti af auknu eftirliti, sem ég tel mjög mikilvægt fyrir þingið og er liður í að styrkja það gagnvart framkvæmdavaldinu og öðrum í samfélaginu,“ segir Sturla.

Nokkuð var um að nefndarfundir væru opnir sl. haust en þeir hafa ekki verið það síðustu mánuði. „Ég hefði gert ráð fyrir því sem forseti að í tengslum við þessar aðgerðir stjórnvalda núna og lagasetningu væri þetta nýtt. Ég tel því miður að þarna sé verið að sleppa mjög mikilvægu tækifæri til að opna inn í störf þingsins fyrir almenning, þegar bankastjórar eða forsvarsmenn fjármálafyrirtækja og forsvarsmenn ríkisstofnana koma fyrir þingnefndir. Ég hefði til dæmis talið mjög eðlilegt að viðskiptanefnd Alþingis héldi opna fundi, þar sem fulltrúar þessara stofnana fjölluðu um lagafrumvörp frammi fyrir almenningi í landinu. Skýrasta dæmið um það hefði verið umfjöllun um Seðlabankafrumvarpið,“ segir Sturla. „Ég saknaði þess að það var ekki gert og tel að þar hafi verið sleppt mjög mikilvægu tækifæri til þess að sýna vinnubrögð þingsins.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert