Stutt á milli hagræðingar og niðurskurðar

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/ÞÖK

„Það er stutt á milli hagræðingar og niðurskurðar" sagði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, á málþingi sem Félag um lýðheilsu boðaði til nú í hádeginu. Ekki líti allir þær aðgerðir sem grípa þarf til í heilbrigðismálum sömu augum og það sem einn hópur túlki sem niðurskurð sjái annar hópur sem hagræðingu.

Félag um lýðheilsu boðaði til málþings í dag til þess að ræða sparnað í heilbrigðiskerfinu og mættu ríflega 100 gestir til þess að hlýða á fyrirlesara og taka þátt í umræðum. Auk Ögmundar héldu erindi: Ingibjörg Á Hjálmarsdóttir hjúkrunarfræðingur, Páll Torfi Önundarson sjúkrahúslæknir, Þórarinn Ingólfsson heimilislæknir og Benedikt Jóhannesson stjórnarformaður Sjúkratrygginga.

Þórarinn Ingólfsson sagði að sín tilfinning fyrir því sem að sagt væri í fjölmiðlum væri sú að ekki væru til neinir peningar. „Það er kominn tími til að við förum að kalla hlutina réttum nöfnum, við erum blönk, það er verið að fara að skera niður þjónustu og það á ekki að vera neitt tabú að ræða það þó það sé stutt í kosningar." Hann sagði að nú þyrfti að einblína á lausnir bæði skammtímaniðurskurð og sparnað til lengri tíma litið.

Tillögur Ingibjargar A. Hjálmarsdóttur til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu voru á þá vegu að auka þyrfti vægi heimaþjónustu við aldraða vegna þess að það sé mun hagkvæmara að gefa eldra fólki kost á að búa lengur heima hjá sér heldur en á sjúkrastofnunum.

Páll Torfi Önundarson sagði að dýrasta tækið í heilbrigðiskerfinu væri penni læknisins og því sagðist hann  kalla eftir því að fagleg og rekstrarleg ábyrgð lækna fari saman. Ennfremur að heilbrigðisráherra fái lækna í lið með sér til þess að meta forgangsröðun þeirra þátta í heilbrigðisþjónustu sem á að skerða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert