Ríkisstjórnin hefur samþykkt viðtækar tillögur í atvinnumálum, sem ætlað er að skapa ríflega 4000 ársverk á næstu misserum.
Um er m.a að ræða störf í byggingariðnaði, við byggingu snjóflóðavarnargarða, gróðursetningu og grisjum, hækkun á endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar, ferðaþjónustuverkefni, fjölgun í hópi þeirra sem njóta listamannalauna og við inn- og útflutning á óunnum fiski.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, kynntu tillögurnar nú eftir hádegi. Össur sagði, að þessu til viðbótar gæti virkjun við Búðarháls og orkuiðnaður skapað 2000 störf til viðbótar. Ekki er gert ráð fyrir Helguvíkurálveri í þeim tölum.
Fjármunir til verkefnisins verða m.a. fengnir úr ýmsum sjóðum, þar á meðal Atvinnuleysistryggingasjóði og hugsanlega Íbúðalánasjóði. Steingrímur sagði að aðkoma Atvinnuleysistryggingasjóðs að þessu verði með þátttöku í átaksverkefnum. „Hann kemur að með ígildi atvinnuleysisbóta í formi launagreiðslna, í skilgreind átaksverkefni og forsendan er yfirleitt sú að í starfið ráðist aðili af atvinnuleysisskrá. Þá er sjóðurinn ekki verða í raun fyrir neinum viðbótarútgjöldum,“ sagði Steingrímur.
Össur sagði að nota ætti þau tæki sem fyrir hendi væru, fremur en að stofnað yrði til beinna útgjalda til að hrinda verkefnum af stað. „Við erum þá að tala um tæki eins og til dæmis peninga sem er að finna í ýmsum ráðuneytum, ýmsum sjóðum og verkefnum. Í sumum tilvikum þarf að breyta heimildum til að nýta þessa peninga,“ sagði Össur.
Meðal aðgerða sem ákveðnar hafa verið er að haldið verði áfram við byggingu tónlistarhúss, sem muni skapa 600 ársverk. ráðist verður í framkvæmdir við snjóflóðavarnir í Bolungarvík, Fjallabyggð/Ólafsfirði, Fjarðabyggð/Neskaupstað og við Holtahverfi á Ísafirði.
Ákveðið var að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndaggerðar úr 14% i 20%. „Vitað er um tvö kvikmyndaverkefni sem eru í burðarliðnum þar sem þessi lagabreyting gæti ráðið úrslitum um það hvort þau verði unnin hér á landi. Þessi verkefni myndu skapa um 120 ársverk auk þess sem þau myndu hafa mjög jákvæð áhrf á ferðaþjónustu og vetingarekstur,“segir í greinargerð.
Unnið verður að ýmsum þróunarverkefnum í ferðaþjónustu og er áætlað að allt að 100 manns fái störf við þau á þessu ári.
Forsætisráðherra sagðist telja þetta mjög mikilvægt skref til að sporna gegn atvinnuleysi. Sennilega væru um 8% á atvinnuleysissrá í dag. Gera megi ráð fyrir að af þeim 4000 ársverkum sem eiga að verða til með þessum agðerum verði til störf fyrir 1400 til 1600 konur.