Skilanefnd Kaupþings hefur náð samkomulagi um uppgjör milli bankans hér og í Lúxemborg. Samningurinn barst fjármálaeftirlitinu í Lúxemborg í gær. Samningurinn var annað lykilskrefa, sem þurfti að stíga svo bankinn færi ekki í þrot.
Hitt skrefið er að semja við lánardrottna bankans, sem einkum eru alþjóðlegir bankar. Nú standa öll spjót á þeim, að sögn Fjármálaeftirlitsins, sem harmar hve langan tíma tók að ná samkomulagi við skilanefnd gamla Kaupþings.
Kaupþing í Lúxemborg hefur verið í greiðslustöðvun frá því í október. Sá tími má ekki verða lengri en sex mánuðir og lýkur því í byrjun apríl. Að sögn fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg gætu dómstólar framlengt greiðslustöðvunina, en unnið verði að því að forðast það, því áhættusamt sé að treysta á slíkan úrskurð. Bankinn verður seldur opinberum líberískum fjárfestingasjóði takist samningar við lánardrottna. Fjárfestingasjóðurinn ætlar að leggja bankanum til nýtt hlutafé að fjárhæð 100 milljónir evra eða um 15 milljarða íslenskra króna. Belgísk og lúxemborgsk stjórnvöld hyggjast þá einnig leggja 600 milljónir evra hlutafé í bankann. Yfirvöld í Lúxemborg gera kröfu um að hlutafé Kaupþings Lúxemborgar verði fært niður, enda hafi það tapast við fall íslensku bankanna.
Allt að 25 þúsund sparifjáreigendur eiga fé í bankanum og fá allt sitt greitt gangi salan í gegn.