Lagt hefur verið fram lagafrumvarp um hópmálsókn sem gerir mönnum kleift að höfða sameiginlega mál til kröfu um bætur fyrir einsleitar kröfur, í stað þess að hver og einn fari í mál. Tíu þingmenn úr öllum flokkum leggja frumvarpið fram en fyrsti flutningsmaður er Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG.
Segir í tilkynningu að hópmálsókn eða fjöldamálsókn (e: class-action) yrði nýmæli í íslenskum lögum, nýtt réttarúrræði sem gerir hópi einstaklinga, sem eiga einsleitar kröfur, kleift að höfða sameiginlega dómsmál til kröfu um bætur vegna tjóns eða lögbrota sem viðkomandi aðilar hafa orðið fyrir. Með því að innleiða slíkt úrræði væri réttarstaða fjölda manna bætt sem hafa svipaðar eða sams konar kröfur en þó svo lágar að þeim yrði vart fylgt eftir af einstaklingum m.a. vegna kostnaðar.
Flutningsmenn eru: Álfheiður Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Siv Friðleifsdóttir, Birgir Ármannsson, Árni Þór Sigurðsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ólöf Nordal, Jón Magnússon, Sigurður Kári Kristjánsson og Grétar Mar Jónsson.