„Það er reyndar með ólíkindum að forsætisráðherra og fjármálaráðherra skuli flytja mál af þessu tagi án þess að geta gert grein fyrir áætluðum kostnaði vegna þess,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Birgir vekur athygli á því að frumvarpi um stjórnlagaþing, sem lagt hefur verið fyrir Alþingi, fylgi ekki kostnaðarmat. Þeir Geir H. Haarde hafi kallað eftir upplýsingum um áætlaðan kostnað í umræðum á þingi í dag, en svör forsætisráðherra hafi verið á þá leið að þar sem um þingmannafrumvarp væri að ræða en ekki stjórnarfrumvarp væri ekki lagaskylda til að láta kostnaðarmat fylgja.
„Sjálfur hef ég gert tilraun til að átta mig á kostnaðinum en tek fram að í því sambandi hef ég aðeins til viðmiðunar ákvæði frumvarps til breytinga á stjórnskipunarlögum á þskj. 648 og drög að frumvarpi um stjórnlagaþing,“ segir Birgir. Hann nefnir ýmsa kostnaðarliði sem muni óhjákvæmilega koma til, s.s. þingfararkaup og launatengd gjöld a.m.k. 41 stjórnlagaþingsfulltrúa, kostnaður vegna sérfræðiaðstoðar, kostnaður vegna húsnæðis, laun starfsmanna þingsins o.fl.
Sé miðað við útgjöld Alþingis til að fá einhverja hugmynd um kostnað við stjórnlagaþing, þrátt fyrir ýmsa óvissuþætti, segir Birgir að ætla megi að heildarkostnaður gæti orðið í kringum einn og hálfa milljarð króna.
„Það má auðvitað líka ímynda sér, að miklu meira aðhalds verði gætt í störfum stjórnlagaþings en Alþingis,“ segir Birgir. „Þá mætti til dæmis miða við að kostnaður vegna stjórnlagaþings á 18 mánuðum verði helmingi minni en kostnaður vegna Alþingis á jafn löngu tímabili. Miðað við viðmiðunartölurnar að framan gæti kostnaður þá orðið rúmlega 1.200 milljónir króna. Ég á bágt með að gera mér í hugarlund að kostnaðurinn geti farið mikið lægra, með tilliti til allra þeirra kostnaðarliða sem gert er ráð fyrir vegna stjórnlagaþingsins.“
Birgir segir því mikilvægt að áætlanir sérfræðinga forsætis- og fjármálaráðuneytis um kostnað liggi fyrir á meðan máli er til meðferðar á Alþingi. „Þær áætlanir verða að vera raunsæjar og taka mið af öllum þeim kostnaðarþáttum sem geta komið til vegna jafn umfangsmikillar starfsemi og hér um ræðir.“