Telur stjórnlagaþing kosta meira en milljarð

Jóhanna Sigurðardóttir og Geir H. Haarde á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir og Geir H. Haarde á Alþingi. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist telja við umræður um frumvarp til stjórnskipunarlaga á Alþingi í dag, að kostnaður við stjórnlagaþing muni verða meira en einn milljarður kr.  Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra svaraði því til að gerð yrði gangskör að því að kostnaðarmat verði lagt fyrir þingnefnd.

Fyrsta umræða um frumvarpið til breytinga á stjórnarskránni og um þjóðkjörið stjórnlagaþing, sem taki til starfa fyrir 1. desember nk. er hafin á Alþingi. Forsætisráðherra sagði er hún mælti fyrir frumvarpinu að þar væru lagðar til leiðir sem flutningsmenn teldu mjög mikilvægan þátt í því verkefni að ná samfélagssátt.

Geir H. Haarde spurði Jóhönnu hvort hún gæti svarað því afdráttarlaust að ákvæði sem lagt er til að verði sett í stjórnarskrá um að náttúruauðlindir séu þjóðareign, grafi ekki undan grundvelli kvótakerfisins. Jóhanna svaraði því til að ákvæðið skerti ekki réttindi þeirra sem hafa fengið úthlutað veiðiheimildum í fiskveiðistjórnarkerfinu.

Geir H. Haarde gagnrýndi einnig kostnað við stjórnlagaþingið en gert er ráð fyrir að 41 þjóðkjörinn fulltrúi sitji þingið. „Það hlýtur að vera augljóst mál að ef 41 maður er í fullri vinnu í tvö ár á þingsmannslaunum mun kosta stórfé,“ sagði hann. Jóhanna sagði rétt að þarna væri gert ráð fyrir að  það yrði full vinna þeirra sem kjörnir verða að sitja stjórnlagaþingið. Hins vegar réðist það af tímalengd þess hver endanlegur kostnaður verður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka