Vikan lýsir furðu á dómi Hæstaréttar

Í greininni er rætt við eiganda Goldfinger
Í greininni er rætt við eiganda Goldfinger mbl.is/Ómar

Ritstjórn Vikunnar hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna dóms hæstaréttar í meiðyrðamáli í gær. Björk Eiðsdóttur blaðamanni var þar gert að greiða Ásgeiri Þór Davíðssynni, veitingamanni á Goldfinger, 500 þúsund krónur í miskabætur og 400 þúsund krónur í málskostnað vegna ummæla í grein sem birtist í tímaritinu.

Í yfirlýsingunni segir að ritstjóri og blaðamenn Vikunnar furði sig á niðurstöðu dómsins. „Í dómi Hæstaréttar er ekki véfengt að blaðamaðurinn hafi viðhaft fagleg vinnubrögð í alla staði við vinnslu greinarinnar, enda hafi viðtalið verið tekið upp á band og viðmælandinn samþykkt efni þess og birtingu,“ segir í yfirlýsingunni. „Blaðamaðurinn viðhafði því augljóslega hárrétt og fagleg vinnubrögð, enda voru ummælin rétt eftir viðmælandanum höfð. Engu að síður taldi Hæstiréttur að blaðamaðurinn þyrfti að þola ómerkingu ummælanna og greiða miskabætur vegna þeirra.“

Þá segir í yfirlýsingunni:

„Blaðamaður segir í vitnaleiðslu í Héraðsdómi að hún sé höfundur greinarinnar, og á þá auðvitað við að hún hafi tekið viðtalið og skrifað greinina. Hæstiréttur túlkar þetta hins vegar á allt annan veg, þ.e. hvaða merkingu orðið „höfundur" hefur, og dæmir hana seka eftir því. Þó er staðfest í dómnum að viðtalið sé fagmannlega unnið á allan hátt.“

Breytt umhverfi

Dómurinn breytir skýrri dómvenju um það að viðmælendur teljist höfundar ummæla sinna. Dómurinn mun breyta verulega starfsumhverfi blaðamanna. Með þessum dómi er Hæstiréttur í raun kveða upp úr með að blaðamenn séu ábyrgir fyrir öllu sem viðmælendur þeirra segja, þrátt fyrir að fyrir liggi hljóðupptaka af ummælum viðmælanda og samþykki viðmælanda fyrir birtingu þeirra. Dómurinn skilur blaðamenn eftir í mun meiri réttaróvissu en áður, hvað varðar heimildir þeirra til að taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, sem er hornsteinn sérhvers lýðræðisríkis. Dómur þessi mun enda hafa mun meiri áhrif en eingöngu í þessu tiltekna máli.

Viðmælendur hætta að þora

Ein óhjákvæmileg afleiðingin niðurstöðu Hæstaréttar er að fólk í erfiðri stöðu hættir að þora koma opinberlega fram og blaðamenn hætta að þora fjalla um viðkvæm mál þar sem þeir verða taldir persónulega ábyrgir fyrir ummælum annarra.

Úrelt prentlög

Dómur Hæstiréttar byggir prentlögum frá 1956, þar sem fram kemur að höfundur sé ábyrgur fyrir ummælum sínum. Eftir dóm Hæstaréttar í gær verður að telja að blaðamaður sé ávallt höfundur. Slík niðurstaða er í andstöðu við bæði íslensk stjórnarskrárákvæði um að hver maður verði að ábyrgjast hugsanir sínar fyrir dómi, og einnig erlend lög um sama efni. Samkvæmt dönskum fjölmiðlalögum ber hver höfundur ábyrgð á sínum þætti. Má því telja niðurstöðu Hæstaréttar í máli blaðmannsins einstaka í hinum vestræna heimi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert