Sturla Böðvarsson, fyrrverandi forseti Alþingis, hafnar því algjörlega að skipulag á nefndafundum Alþingis hafi miðað að því að gera fundina að fjölmiðlafundum ráðherra, líkt og Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar, sagði í Morgunblaðinu í gær.
Sturla bendir á að breytingar sem gerðar voru á þingskaparlögum og reglum forsætisnefndar um opna fundi þingnefnda miðuðu að því að sú krafa er nú gerð að í upphafi haustþings koma ráðherrar á fundi viðkomandi nefndar og gera grein fyrir þeim málum sem viðkomandi ráðherra ætlar að leggja fyrir þingið. Það sé síðan val þingnefndanna hvort fundirnir eru opnir eða ekki. Meirihluti nefndarinnar getur einnig ákveðið að hafa alla fundi opna en það hafi þó ekki hugsunin, m.a. vegna kostnaðar við sjónvarpútsendingu. Á hinn bóginn hefðu nefndarmenn kost á að fjalla um mál sem eiga erindi við almenning á opnum fundum.
Í Morgunblaðinu í gær benti Álfheiður á að í reglum um opna nefndarfundi væru gerðar sömu kröfur um klæðaburð sem giltu í þingsal sem undirstrikaði að þetta væri „skrautsýning“. Sturla segir þessi orð varla svaraverð. Það væri lögð áhersla á að fólk kæmi ekki illa til fara á fundi þingsins og öllum þætti það eðlilegt. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri athugasemdir um þá kröfu að fólk sé sæmilega til fara.“