Búist við fjölmenni á skíðasvæðum

Frá Hlíðarfjalli.
Frá Hlíðarfjalli. mbl.is/Skapti

Skíðasvæði verða opin víða á landinu í dag og er búist við fjölmenni þar sem veðrið er mjög fallegt.

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli er opið í dag frá klukkan tíu til fjögur eftir hádegi. Þar er fallegt veður, logn og 11 stiga frost og sólin byrjuð að glenna sig yfir Vaðlaheiðinni.

Skíðasvæðið á Dalvík verður opið frá klukkan átta til fimm. Þar er blíða og skíðafæri gott. Börn á aldrinum 9-12 ára taka þátt í Jónsmóti sem fram fer þar í dag.

Skíðasvæðið í Tindastól verður opið til klukkan fimm í dag. 7,4 stiga frost er á svæðinu, logn og heiðskírt.

Skíðasvæðið á Siglufirði verður opið til klukkan fjögur. Þar er suðvestan gola, fimm stiga frost og færið mjög gott.

Skíðasvæðið í Stafdal á Seyðisfirði verður opið frá klukkan ellefu til fimm. Þar er logn, léttskýjað og gott skíðafæri.

Skíðasvæðið í Kóngsgili í Bláfjöllum vera opið til klukkan tíu í kvöld. Þar verða skemmtiatriði, gúllassúpa til sölu, blysför og Dr. Spock spilar svo eitthvað sé nefnt. Það kostar 1.000 kr í lyftur á tímabilinu 17-22 og rennur allur ágóði beint til Breiðra brosa, samtaka fyrir börn með skarð í vör.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert