Eikarbáturinn Hrönn ÍS sökk í höfn Ísafjarðarbæjar í dag og voru björgunarsveitir kallaðar út til að reyna að forða tjóni. Annar bátur var bundinn við Hrönnina, þar sem hún lá við bryggju. Talið er að botnloki hafi farið og að flætt hafi inn í bátinn, að sögn viðmælenda fréttaritara Morgunblaðsins, sem fór á vettvang.
Skerta þurfti hinn bátinn, Jón forseta, frá Hrönn til að forða því að hann sykki með henni. Björgunaraðgerðum er lokið í dag, en ekki er talið að tiltakanlegt tjón hafi orðið á Jóni forseta. Hrönnin liggur hins vegar enn á botni hafnarinnar og verður líkast til ekki hreyfð fyrr en eftir helgina, að sögn lögreglunnar á Ísafirði.
Hrönn hefur ekki verið í mikilli notkun að undanförnu, og er því ekki um að ræða rekstrartjón vegna þess hvernig fór, heldur einungis tjón vegna skemmda á bátnum sjálfum, sem telja má þó að verði umtalsvert.