Réttlætismál sem velkst hefur í kerfinu

Þorvaldur Örn Kristmundsson

Náist þverpólitísk sátt um breytingar á skaðabótalögunum frá 1993, með síðari tíma breytingum, væri hægt að samþykkja þær sem lög frá Alþingi innan tveggja vikna. Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður allsherjarnefndar, en nefndin fjallaði á fundi sínum í gær um framkomnar breytingatillögur og mun fara nánar í saumana á málinu nk. mánudag.

„Þetta er mikið réttlætismál sem hefur velkst undarlega lengi í kerfinu sl. misseri,“ segir Árni Páll og bætir við: „Ég skynja það eftir umræður um þetta mál í nefndinni að menn hafi áhuga á að fara í þessar breytingar.“

Breytingarnar sem Árni Páll vísar til eru komnar frá hæstaréttarlögmönnunum Birni L. Bergssyni, Karli Axelssyni og Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, en þeir hafa síðan 2004 barist fyrir því að umdeildu ákvæði, sem rataði inn í skaðabótalögin 1999, verði breytt. Þá var sett inn í lögin ákvæði þess efnis að frá skaðabótum skuli dragast greiðslur sem tjónþolar fá frá almannatryggingum og úr lífeyrissjóði í framtíðinni. Hefur verið á það bent að af þessum sökum þurfi nær allir sem verða fyrir meira en 50% varanlegri örorku að sæta lækkun skaðabóta, miðað við það sem var áður en lagabreytingin tók gildi.

Málið strandaði árið 2005

Hæstaréttarlögmennirnir hafa lagt til að skerpt verði á lagatextanum þannig að kveðið verði á um að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns skuli „dragast eingreiddar örorkubætur almannatrygginga“ þannig að hætt verði að reikna saman allar framtíðargreiðslur frá almannatryggingakerfinu og úr lífeyrissjóði og draga frá skaðabótum. Samhliða þessu yrði réttur hlutur eftirlifandi maka sem misst hafa fyrirvinnu sína.

Raunar hefur áður verið gerð tilraun til þess að breyta þessu ákvæði skaðabótalaganna, því vorið 2005 flutti Bjarni Benediktsson, þáverandi formaður allsherjarnefndar, frumvarp til laga um breytingu á skaðabótalögum sem byggðist á fyrrgreindum ábendingum hæstaréttarlögmannanna þriggja. Eftir fyrstu umræðu var málinu vísað aftur til allsherjarnefndar og í framhaldinu var kallað eftir umsögnum frá m.a. Guðmundi Sigurðssyni, dósent við HR, Lögmannafélagi Íslands, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Tryggingamiðstöðinni hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf. Í samtali við Morgunblaðið bendir Árni Páll á að ein ástæða þess að hægt væri að afgreiða málið hratt nú sé einmitt af því að búið sé að kalla eftir umsögnum þar til bærra aðila.

Spurður hvers vegna lagafrumvarpið hafi ekki fengist afgreitt úr allsherjarnefnd á sínum tíma segir Bjarni að nefndin hafi tekið ákvörðun um að leita samstarfs við lögfræðinga um að vinna úr fram komnum athugasemdum. „Ég, sem formaður nefndarinnar, óskaði ítrekað eftir því við nefndarsvið þingsins að gengið yrði til samninga við lögfræðingana, en einhverra hluta vegna náðist ekki samkomulag sem varð á endanum til þess að sú vinna fór aldrei fram.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert