Börnin fá smánarbætur

Ásgeir Ingvi Jónsson og sonur hans, Nóni Snær
Ásgeir Ingvi Jónsson og sonur hans, Nóni Snær mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Frádrátttaratkvæði sem sett var inn í skaðabótalögin árið 1999, til að hindra ofbætur tjónþola alvarlegra slysa, sætir vaxandi gagnrýni. Ákvæðið kveður á um að framtíðargreiðslur tjónþola frá almannatryggingum og úr lífeyrissjóði skuli dregnar frá skaðabótakröfu. Þetta kemur sérlega illa út fyrir þá sem slasast mest sem og börn, sem oft á tíðum sitja eftir með smánarlega lágar bætur fyrir tjón sitt.

Dæmi er um að ungu barni, sem hlotið hefur 100% varanlega örorku eftir slys, séu dæmdar tæpar 30 milljónir króna í skaðabætur en þurfi að horfa á eftir helmingi fjárhæðarinnar í frádrátt vegna framtíðargreiðslna almannatrygginga sem ekki er öruggt að barnið muni nokkurn tímann fá. Fjárhæðin sem eftir stendur á að duga barninu til þess að gera sig jafnsett eftir slysið einstaklingi sem er ófatlaður. „Það að segja að maður sem orðinn er lamaður sé jafn vel eða betur settur af því að hann muni í framtíðinni fá mánaðarlegar greiðslur úr lífeyrissjóði eða TR, er í besta falli hlægilegt,“ segir Óðinn Elísson hrl.

Formaður allsherjarnefndar Alþingis vonar að hægt verði að ná þverpólitískri sátt um að breyta lögunum á yfirstandandi þingi.

Manni finnst þetta bara svo ósanngjarnt og vitlaust að maður getur ekki þagað,“ segir Ásgeir Ingvi Jónsson og vísar þar til skerðingarákvæðisins sem sett var inn í skaðabótalögin 1999 og þess hvaða upphæðir miðað er við þegar börnum er reiknað ímyndað framtíðartekjutap í kjölfar mikillar örorku vegna slyss.

Sonur Ásgeirs, Nóni Sær, lamaðist fyrir neðan mitti í alvarlegu bílslysi fyrir rúmum tveimur árum þá aðeins 8 ára gamall en 5 ára gömul systir hans, Svandís Þula, lést í sama slysi. Óhætt er að segja að viðtal Kastljóss Ríkissjónvarpsins við Ásgeir nýverið hafi vakið mikla athygli, en þar deildi Ásgeir harðlega á skaðabótalögin með síðari tíma breytingum. Eins og lesa má hér á opnunni að framan þá hefur ákvæði, sem sett var inn í skaðabótalögin 1999, þau áhrif að frá skaðabótum þeirra sem hljóta meira en 50% varanlega örorku eftir slys dragast allar framtíðargreiðslur frá almannatryggingum og lífeyrisjóði.

Í fyrrnefndu bílslysi skall bíll Ásgeirs framan á bíl sem ók á röngum vegarhelmingi vegna framúraksturs. Ökumaður hins bílsins var tryggður hjá VÍS. Samkvæmt fullnaðaruppgjöri á þeim skaða- og miskabótum sem Nóni Sær á rétt á fær hann þjáningabætur og bætur vegna varanlegs miska og er sá hluti ekkert skertur. Langstærstur hluti bótanna er hins vegar vegna þess að varanleg örorka hans var metin 100%. Vegna örorkunnar þarf VÍS að greiða honum ríflega 29,5 milljónir króna, en frá þeirri upphæð dragast allar framtíðarbætur Nóna Sæs frá TR en þær nema ríflega 15 milljónum. Hann fær því alls tæplega 14,5 milljónir í skaðabætur vegna örorku sinnar frá VÍS.

„Þetta er barátta fyrir aðra“

Í samtali við Morgunblaðið leggur Ásgeir áherslu á að ástæða þess að hann velji að stíga fram til að vekja athygli á vanköntum skaðabótalaganna sé ekki síst tilhugsunin um aðstæður barna sem fari verr út úr slysum en sonur hans gerði. „Nóni Sær er með efri partinn á líkamanum í lagi og getur vonandi unnið fyrir sér í framtíðinni. Þannig að hann á alveg að geta komist þokkalega í gegnum lífið. Þetta er því barátta fyrir aðra,“ segir Ásgeir.

„Það er tvennt í skaðabótalögunum sem er hreinlega vitlaust. Annars vegar að miða við ákveðna krónutölu fyrir tekjulaust fólk, þar á meðal börn, sem liggur rétt ofan við lágmarkslaunin í landinu. Að mínu mati væri eðlilegra að miða við meðallaun. Í mínum huga er rangt að gefa sér að allir tekjulausir einstaklingar og öll börn sem slasast hefðu bara verið með lágmarkslaun, því þannig er sjálfkrafa búið að raða þessum hópi í neðsta þrep þjóðfélagsstigans,“ segir Ásgeir og segir hina vitleysuna snúa að skerðingarákvæði skaðabótalaganna. Bendir hann á að skaðabótum sé m.a. ætlað að hjálpa tjónþolanum að laga sig að þeim breyttu aðstæðum sem felist í því að búa við mikla fötlun.

Ásgeir tekur fram að þó eingreiðsla upp á 15-25 milljónir geti ein og sér hljómað sem há upphæð þá þurfi að setja hlutina í samhengi. „Upphæðin dugar varla fyrir slasaðan einstakling til að kaupa sér íbúð, en hafa ber í huga að fötlunin setur fólki þrengri skorður með val á íbúð, m.a. með tilliti til aðgengis fyrir hjólastól. Séu allir fjármunirnir bundnir í íbúðinni þá þarf viðkomandi að lifa á örorkulífeyri frá TR sem nemur um 150 þúsundum kr. á mánuði fyrir skatt, sem þýðir að búið er að dæma þennan einstakling til fátæktar. Ef viðkomanda tekst að setja einhvern hluta bótanna til hliðar og ávaxta peningana þá skerða fjármagstekjurnar örorkubæturnar um leið, þannig að skerðingin er farin að virka í hring.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka