Á síðustu árum hafa komið upp mörg tilvik í íslensku viðskiptalífi þar sem íslensku bankarnir þrír sem nú eru fallnir, Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing, lánuðu viðskiptavinum sínum til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum.
Finn Østrup, prófessor í lögfræði við Copenhagen Business School (CBS), sagði í Morgunblaðinu í gær að hann liti svo á að lán danskra banka til kaupa á bréfum í bönkunum sjálfum væru brot á dönskum lögum. Þetta var meðal annars til umfjöllunar í heimildarþætti í danska ríkissjónvarpinu 4. mars sl. þar sem fjallað var ítarlega um gjaldþrot Roskilde Bank.
Ástæða þess að Østrup telur lán af þessu tagi ólögleg er sú að með þessu er lánveitandinn að hafa óeðlileg áhrif á gengi bréfa í sér sjálfum. Í tilfelli Roskilde Bank eru einnig uppi ásakanir um að stjórnendur bankans hafi þrýst á viðskiptavini til þess að taka þátt í þessum viðskiptum, á sama tíma og danska fjármálaeftirlitið hafði gert athugasemdir við eiginfjárstöðu bankans, á árunum 2006 og 2007.
Morgunblaðið hefur frá því bankarnir féllu fjallað um nokkur dæmi þar sem viðlíka lán og þau sem Roskilde Bank veitti, komu frá íslensku bönkunum.
Þar á meðal eru lán Glitnis til eignarhaldsfélagsins Stíms, lán Kaupþings til fjárfestingafélagsins Giftar og lán Landsbankans til Ímon ehf. þremur dögum áður en bankinn var formlega tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu.
Lán Glitnis til Stíms var upp á um 25 milljarða og var féð eingöngu notað til þess að kaupa bréf í Glitni. Fram hefur komið í Morgunblaðinu að hugmyndin að stofnun félagsins hafi komið frá starfsmönnum Glitnis.
Í desember 2007 lánaði Kaupþing Gift um 20 milljarða vegna kaupa á bréfum í bankanum sem áður höfðu verið í eigu Gnúps. Samkvæmt lánasamningnum þurfti Gift að leita samþykkis Kaupþings ef það ætlaði að selja eignir umfram 15 prósent af heildareignasafni félagsins. Stjórn Giftar sagði í greinargerð til skilanefndar félagsins, sem þá vann að slitum á félaginu: „Félagið mátti t.d. ekki selja meira en 15% af eignum sínum, nema að undangengnu samþykki Kaupþings, sem þýddi í raun að ákvörðun um að selja eignir félagsins var ekki í höndum stjórnar þess heldur stærsta lánardrottins félagsins, í þessu tilfelli Kaupþings.“
Landsbankinn lánaði Ímon, sem var í eigu Magnúsar Ármanns, á fimmta milljarð til kaupa á bréfum í bankanum.
Hvað varðar lög um markaðsmisnotkun þá hefur ekki fallið dómur hér á landi þar sem reynir á hvort bankar megi lána með þessum hætti. En lán af því tagi hafa til þessa verið látin afskiptalaus.
Gylfi segist telja það í raun með „ólíkindum“ að bankar hafi stundað þessi lán í jafn miklum mæli hér eins og virðist hafa verið raunin. Þau séu ekki skynsamleg og alltof áhættumikil.
„Það gefur augaleið að hlutbréfamarkaðurinn er ekki gagnsær, og í raun ekki eðlilegur, þegar svona viðskipti eru stunduð. Í svona viðskiptum skapast aðstæður sem fjárfestar á hlutabréfamarkaði skaðast beint af. Það er mikilvægt að það verði tekið á þessum hlutum til framtíðar litið. Hlutabréfamarkaðurinn má ekki verða aftur eins og hann var hér um árabil fram að bankahruninu,“ segir Gylfi.
Hann segist gera „fastlega ráð fyrir því“ að lánveitingar til kaupa á bankabréfum verði rannsökuð.