Femínistafélag Íslands fordæmir nýfallin dóm Hæstaréttar í máli Bjarkar Eiðsdóttur blaðamanns og Ásgeirs Þórs Davíðssonar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu. Hæstiréttur dæmdi Björk til að greiða 500.000 kr. í bætur fyrir að birta ummæli fyrrverandi nektardansmeyjar um vændi á Goldfinger. Ummælin voru hljóðrituð.
„Í heild sinni brýtur dómurinn gegn leikreglum lýðræðis og mannréttinda,“ segir í yfirlýsingu Femínistafélagsins. „Dómurinn endurspeglar úrelt gildismat sem byggir á valdníðslu valdhafa og virðingu fyrir peningum á kostnað kvenna. Dómurinn felur í sér samþykkt á vændissölu þriðja aðila en bannar þolendum vændis að tjá sig. Jafnfram brýtur dómurinn frelsi fjölmiðla á bak aftur. Valdhafar eiga orðið og tjáningafrelsi þegna landsins er fótum troðið.“
Femínistafélagið harmar að á endurreisnartímum íslensks samfélags skuli háttvirt samfélagsstofnun, Hæstiréttur, komast upp með mannréttindabrot. Femínistafélagið krefst uppstokkunar í Hæstarétti líkt og öðrum stofnunum samfélagsins og skorar á aðila málsins að áfrýja málinu til Evrópudómstóls.“