Ófært víða norðaustanlands

Ófærð er víða á norðausturlandi
Ófærð er víða á norðausturlandi mbl.is/Guðmundur Karl

Snjómokstri hefur verið hætt á Norðausturlandi vegna veðurs, en þar er víða þæfingsfærð að sögn Vegagerðarinnar. Óveður og þungfært er á milli Húsavíkur og Lauga. Ófært er einnig á milli Vopnafjarðar og Þórshafnar, um Melrakkasléttu og um Hálsa. Þá er ófært um Vopnafjarðarheiði og Mývatnsöræfi og þungfært er um Möðrudalsöræfi. Ekkert ferðaveður hefur verið í þessum landshluta.

Á Suðurlandi er víða hálka eða hálkublettir þó aðallega í uppsveitum. Hálkublettir og skafrenningur er á Hellisheiði ogí Þrengslum.

Á Vesturlandi eru víðast hálka, hálkublettir og skafrenningur. Hálka og stórhríð er á Holtavörðuheiði, hálkublettir og skafrenningur er á Bröttubrekku. Hálkublettir og skafrenningur er á Vatnaleið. Ófært er á Fróðarheiði.

Á Vestfjörðum er víða hálka, hálkublettir, éljagangur og skafrenningur. Ófært er um Klettsháls. Hálka og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði.

Á Norðurlandi er víða hálka, hálkublettir, snjóþekja, éljagangur og skafrenningur. Ófært og stórhríð er á Þverárfjalli. Ófært er vegna snjóflóða á milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Ófært og stórhríð er í Víkurskarði og að Grenivík og er mokstri hætt þar vegna veðurs.

Á Austurlandi er þungfært , þæfingsfærð og skafrenningur. Ófært er um Vatnsskarð eystra. Þungfært og stórhríð er á Fagradal og þungfært og skafrenningur er í Oddskarði og á Fjarðarheiði. Ófært er um Breiðdalsheiði. Óveður er í nágrenni Djúpavogs.

Á Suðausturlandi eru víða hálkublettir og skafrenningur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert