Komst inn um opnar búðardyr í nótt

10-11
10-11

Viðskiptavini 10-11 í Sporhömrum brá í brún í nótt þegar viðvörunarkerfi fór í gang þegar hann var kominn inn í miðja verslun. Í ljós kom að verslunin er ekki lengur opin að næturlagi en dyr verslunarinnar höfðu engu að síður opnast þegar hann kom að þeim.

Að sögn viðskiptavinarins hefur hann oft áður gert innkaup í þessari verslun að næturlagi og það hugðist hann einnig gera nú. Ljós voru kveikt og dyrnar opnuðust. Honum brá þegar viðvörunarkerfið fór í gang og kallaði á starfsmann án árangurs. Síðan gekk hann að útganginum og sá þá miða sem á stóð að frá og með 1. mars yrði versluninni lokað klukkan 24. Verslunin hafði þess vegna verið opin án starfsmanna í nær fjórar klukkustundir.

Öryggisvörð bar að eftir nokkrar mínútur og rauk hann út úr bílnum og taldi sig hafa gómað þjóf á vettvangi. Viðskiptavinurinn hringdi sjálfur í lögregluna og að hans sögn tókst að leysa málin eftir nokkurt þras og útskýringar.

Dagný Jakobsdóttir aðstoðarverslunarstjóri kvaðst í morgun hafa séð skilaboð frá öryggisverði um að hann hafi komið á staðinn. Hún gerir ráð fyrir því að gleymst hafi að loka dyrum verslunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert