Fiskbúðir lækka verð

Verslanir Fiskisögu ætla að lækka verð á fiski í dag
Verslanir Fiskisögu ætla að lækka verð á fiski í dag

Fimm fiskbúðir undir merkjum Fiskisögu munu í dag lækka fiskverð um allt að 50%. Misjafnt er hversu mikið vörur lækka en yfir heildina er um að ræða lækkun upp á rúm 30%. Fiskbúðirnar eru á sama tíma að breyta um áherslur, að því er segir í tilkynningu. „Vöruúrval verður aukið og verður meira lagt upp úr minna unnu hráefni sem skapar enn frekara svigrúm til verðlækkunar. Þrjár megin ástæður skapa aðstæður fyrir svo mikilli lækkun. Fiskverð á mörkuðum hefur lækkað umtalsvert síðustu vikur.

Móðurfélag Fiskisögu hefur ákveðið að lækka álagningu í verslunum og loks næst fram enn meiri lækkun á vörum sem eru lítið unnar. Óvíst er hver þróun fiskverðs verður á næstunni en telja verður ólíklegt að það hækki mikið. Fiskisaga er hins vegar háð verði á mörkuðum og mun þurfa að endurskoða verð á nýjan leik, verði miklar breytingar á því, hvort sem er til lækkunar eða hækkunar," að því er segir í tilkynningu.

Sem dæmi um lækkun má nefna ýsuflök með roði. Kílóverð fyrir helgi var 1.250 kr. en er í dag 699 kr. Roð- og beinlaus ýsuflök kostuðu 1.490 kr. kg. en lækka í 1.190 kr. Raspaðir ýsubitar fara úr 1.460 kr. kg. í 999 kr. Hausuð heil ýsa verður nú aftur á boðstólum og verður kílóverðið 399 kr. Aðrar fisktegundir lækka einnig verulega í verði. Úrval tilbúinna fiskrétta verður áfram á boðstólum og kostar réttur dagsins 999 kr. kílóið.

Guðlaugur Magnússon er framkvæmdastjóri Nordic Sea, sem á og rekur Fiskisögu, segir í tilkynningu:

„Við erum að laga okkur að breyttu efnahagslegu ástandi og erum í raun að færa okkur nokkur ár til baka. Okkar markmið er að reka fiskbúðir fyrir fólkið. Við leggjum nú meiri áherslu á fjölbreyttara vöruúrval og viðbótin felst í minna unnum afurðum og þannig getum við komið til móts við viðskiptavini okkar. Við finnum greinilega að fólk hefur minni fé handa á milli. Okkar viðleitni fellst meðal annars í því að nú erum við í fyrsta skipti í mörg ár að selja heila hausaða ýsu og það á mjög góðu verði. Við höfum einnig tekið ákvörðun um að lækka álagninu okkar í búðunum.“ Fimm fiskbúðir eru reknar undir merkjum Fiskisögu á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Þær eru við Dalveg i Kópavogi, við Fitjar í Reykjanesbæ og við Höfðabakka, Sundlaugarveg og Háaleitisbraut í Reykjavík. Allar búðirnar opna í dag með nýja verðskrá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert