Hákon Aðalsteinsson látinn

Hákon Aðalsteinsson.
Hákon Aðalsteinsson. mbl.is/RAX

Hákon Aðalsteinsson, skáld og fyrrum skógarbóndi á Húsum í Fljótsdal, er látinn, á 74. aldursári. Hákon fæddist að Vaðbrekku í Hrafnkelsdal 13. júlí 1935, foreldrar hans voru Aðalsteinn Jónsson bóndi og Ingibjörg Jónsdóttir húsmóðir.

Hákon stundaði nám í Alþýðuskólanum á Laugum í Reykjadal veturinn 1953-54, lauk meiraprófi bifreiðastjóra á Akureyri 1957 og vélstjóraréttindi fékk hann árið 1960. Hann starfaði framan af sem vélstjóri á skipum en einnig sem bílstjóri og ökukennari. Lokaprófi frá Lögregluskóla ríkisins lauk Hákon árið 1973 og var hann lengi lögregluþjónn á Egilsstöðum og Húsavík. Hákon var um nokkurra ára skeið fréttaritari Morgunblaðsins á Egilsstöðum. Árið 1992 fluttist hann að Húsum og gerðist skógarbóndi en starfaði jafnframt sem tollvörður við ferjuna Norrænu á Seyðisfirði. Árið 2006 seldi Hákon jörð sína í Fljótsdalnum og fluttist til Egilsstaða.

Hákon var landsþekktur hagyrðingur og hafa lög verið samin við mörg af kvæðum hans og vísur eftir hann orðið fleygar. Hann sendi frá sér sjö bækur, þar af þrjár ljóðabækur.

Ævisaga hans, Það var rosalegt, skráð af Sigurdóri Sigurdórssyni, kom út haustið 1997.

Hákon eignaðist fjögur börn. Eftirlifandi eiginkona hans er Sigrún Benediktsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert