Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að lánasafn nýju bankanna væri eitt það lélegasta sem menn hefðu séð síðan í kreppunni miklu og afskriftarþörf nýja bankakerfisins væri gríðarleg.
Bjarni sagði í umræðu um endurreisn efnahagslífsins sagði að brýnasta verkefnið væri að koma efnahagslífinu í gang á ný. Hann sagði gríðarlega mikilvægt, að ríkissjóður taki ekki á sig of mikla áhættu við endurreisn bankanna.
Bjarni sagði, að hér væri bankakrísa; bankarnir hefðu gefið sig, tekið of mikla áhættu og sýnt glannaskap. Fyrirtækin í landinu hefðu hins vegar ekki farið fram úr sér heldur hefðu þau þurft að glíma við háa vexti og erfiðar ytri aðstæður og því væri sérstaklega brýnt að stjórnvöld komi kröftuglega til móts við atvinnulífið og aðstoði það við að komast yfir erfiðasta hjallann.
„Það má segja að það sé unnið kraftaverk af starfsfólki út um allt land," sagði Bjarni.
Hann sagði að það sama gildi um stöðu heimilanna. Þar hefði einnig margt verið gert en það þurfi að gera betur.
Bjarni sagði að lánasafn nýju bankanna væri það lélegasta sem sést hefði frá því í kreppunni miklu. „Það er rætt um það að afskriftarþörf nýju bankanna sé slík að menn hafa ekki í fjármálakrísum annarra landa í seinni tíð séð annað eins," sagði Bjarni.
Hann sagðist fagna því að nú standi til að kortleggja stöðu heimila og fyrirtækja. Slíkt væri löngu tímabært og ótrúlegt væri að veturinn skuli hafa verið látinn líða án þess að slíkra upplýsinga væri aflað.
Á sama hátt væri fráleitt rætt væri um aðstoð við fyrritækin og bankakerfið án þess að þessar upplýsingar liggi fyrir. Ég veit að upplýsingar um stöðu lánasafns nýju ríkisbankanna liggja fyrir í ríkistjórninni frá ráðgjöfum hennar," sagði Bjarni.
Hann sagðist lýsa yfir efasemdum um að það sé rétt að taka yfir jafn mörg vandamálalán og raun bæri vitni inn í nýju bankana. „Mig grunar, að það gæti verið skynsamlegra að skilja eftir hluta af vandanum í gömlu bönkunum og leyfa kröfuhöfunum þar að eiga við það. Hvers vegna ættum við að vera að setja ríkið í áhættu við að fjármagna jafn lélegt lánasafn?" sagði Bjarni. Þetta er áhættufjárfesting fyrir ríkið og 5% ofmat á eignum nýja bankakerfisins gæti valdið 100 milljarða tjóni fyrir ríkissjóð.