Háar lánveitingar frá öllum föllnu bönkunum þremur eru til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu (FME), samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Í rannsóknarskýrslunum, sem endurskoðendafyrirtækin PriceWaterhouseCoopers, Deloitte og Ernst & Young unnu fyrir FME og fjölluðu um hvort Kaupþing, Glitnir eða Landsbankinn hefðu vikið frá innri reglum banka, lögum eða öðrum reglum í aðdraganda bankahrunsins, er fjallað um slíkar lánveitingar.
Meðal þess sem þar er tiltekið eru gríðarlega háar lánveitingar til einstakra erlendra viðskiptaaðila á borð við Robert Tchenguiz, en útistandandi lán frá Kaupþingi til hans námu 230,2 milljörðum króna um mitt ár 2008.
Morgunblaðið birti á laugardag hluta úr lánabók Kaupþings frá miðju síðasta ári þar sem kemur fram að lán til eigenda bankans og aðila tengdum þeim námu samtals 478 milljörðum króna.
Um var að ræða lán til bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona, Ólafs Ólafssonar, áðurnefnds Tchenguiz og félaga í þeirra eigu. Bræðurnir eru eigendur Exista sem var stærsti hluthafinn í Kaupþingi þegar bankinn féll og Tchenguiz sat í stjórn Exista. Ólafur á síðan Eglu Invest B.V. sem var þriðji stærsti eigandi Kaupþings.
Gunnar Páll Pálsson, formaður VR og fyrrum stjórnarmaður í Kaupþingi, sat í lánanefnd stjórnar bankans. Hann staðfestir að þær upphæðir sem komu fram að hefðu verið lánaðar til eigenda og aðila tengdum þeim í Morgunblaðinu á laugardag séu nokkurn veginn réttar. Gunnar Páll segir að veðtryggingar hafi verið á móti þessum lánum að hluta.
„Efnahagur Kaupþings var tæplega 7.000 milljarðar króna og hlutverk bankans var að vera í lánastarfsemi. Ég er ekki með það í kollinum nákvæmlega hvaða veð voru á móti þessu en þetta var allt veitt samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi.“
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.