Loftrýmisgæsla Dana á Íslandi hefst í dag og mun standa næstu þrjár vikur. Alls verða 48 Danir á Keflavíkurflugvelli vegna verkefnisins sem tengist aðild beggja þjóðanna að NATO. Danir sjá um þessar mundir einnig um loftrýmisgæslu í Litháen.
„Það er kalt og hvasst og ég get séð nokkur dökk ský á leið inn yfir landið og ég held að það muni snjóa. En það þarf meira til að stöðva okkur," hefur Jyllands-Posten eftir Michael Rosenkrands, verkefnisstjóra Dana á Íslandi.
Rosenkrands segir, að tvær F-16 flugvélar yrði aðallega notaðar við eftirlitið en tvær til viðbótar eru til reiðu. Verkefnið felst aðallega í því að fylgjast með hvor óboðnir gestir komi inn í íslenska loftrýmið. „Þá fljúgum við og heilsum upp á þær," segir Rosenkrands.
Fram kemur, að Danir hafi ákveðið að greiða stærsta hluta kostnaðarins við loftrýmisgæsluna vegna hinnar erfiðu fjárhagsstöðu, sem íslenska ríkið er í.
Þetta er í þriðja skipti sem NATO-ríki sér um loftrýmisgæslu á Íslandi frá því Ísland og NATO gerðu samkomulag um slíka gæslu 2006. Frakkar og Bandaríkjamenn hafa verið hér en hætt var við gæslu Breta, sem átti að vera í nóvember.