Kristján Berg fiskikóngur gefur ekki mikið fyrir allt að 50 prósenta verðlækkun Fiskisögu sem greint var frá í morgun. Nú sé Fiskisaga loksins með sama verð og aðrir fisksalar.
„Frá því að ég opnaði nýja verslun þann 7. janúar síðastliðinn hafa fisksalar verið að lækka verðið. Núna er Fiskisaga loks að selja fiskinn eins og hann á að kosta og hætta okrinu,“ segir Kristján.
Kristján sem hefur verið í bransanum í 20 ár kveðst hafa selt Fiskisögu gömlu verslunina sína fyrir rúmum þremur árum.
„Tilboðið, 100 milljónir króna, var svo fáránlegt að ég gat ekki sagt nei. Síðan ætlaði ég að opna verslun aftur og vildi þá kaupa mína tilbaka. Þá var það ekki hægt. Þegar ég opnaði nýja verslun fyrr í vetur fóru allir fisksalar að titra,“ segir fiskikóngurinn.