Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að skuldir þjóðarbúsins, tekjufall og samdráttur, séu meiri en spár, sem gerðar voru í október og nóvember gáfu til kynna. Hins vegar sé verðbólga minni en reiknað var með þá og sömuleiðis hafi gengisþróun krónunnar orðið jákvæðari.
Þetta kom fram í umræðu utan dagskrár á Alþingi í dag um endurreisn efnahagslífsins. Steingrímur sagði að enginn undirliggjandi verðbólguþrýstingur væri nú í hagkerfinu og með styrkingu krónunnar væru allar forsendur til þess að vextir fari að lækka hratt á öðrum ársfjórðungi.
Steingrímur sagði, að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefðu verið hér á landi að undanförnu og væru nú að ljúka sinni úttekt. Í tengslum við það hefðu farið fram rækilegar viðræður um stöðu mála þar sem borin sé saman staðan nú og það mat sem fram fór í október og nóvember.
Sumt væri hagstæðara en reiknað var með í vetur, svo sem verðbólgutölur og þróun gengis krónunnar. Annað væri neikvæðara, svo sem það, að heildar skuldsetning þjóðarinnar virðist meiri en áður var talið, fyrst og frest vegna meiri skulda einkaaðila en reiknað var með. Hins vegar stæðust áætlanir um skuldir ríkissjóðs fullkomlega. Þá væru tekjufall og samdráttur í þjóðarbúskapnum meiri en gert var ráð fyrir og atvinnuleysi sé meira en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði, eða um 10%. Það sé hins vegar í samræmi við spár innlendra aðila.
„Það verða áfram einhverjir erfiðleikar; Það er ekki allt búið enn eins og morguninn var til vitnis um þegar stór fjárfestingarbanki komst í þrot og var yfirtekinn. Ég er engu að síður bjartsýnn um að brátt sjái fyrir endann á slíkum hlutum," sagði Steingrímur. „Ég trúi því að með lækkandi verðbólgu og vöxtum og hækkandi sjó förum við að geta horft fram til heldur betri tíma í vor. Það verður erfitt út þetta ár og að minnsta kosti langt inn á það næsta en þá ættu að vera góðar forsendur til að botninum verði náð."