Tryggvi Þór: Greinir frá fjárhagslegum tengslum sínum

Tryggvi Þór Herbertsson.
Tryggvi Þór Herbertsson. Mbl.is/ Kristinn

Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, gerir grein fyrir fjárhagslegum tengslum sínum við atvinnulífið á bloggsíðu sinni. Tryggvi Þór, sem býður sig fram í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðuaustur kjördæmi, segist vilja leggja spilin á borðið og eyða allri óvissu með þessu.

Þá skorar hann á aðra stjórnmálamenn að gera hreint fyrir sínum dyrum með þessum hætti.

„Seint haustið 2006 var mér boðið að verða forstjóri nýs fjárfestingarbanka, Askar Capital, sem setja átti á laggirnar áramótin þar á eftir. Eins og gengur var samið um laun og sem hluta af starfskjörum var mér boðið að kaupa hlut í bankanum. Mér var tjáð að launin yrðu ekki í samræmi við það sem tíðkaðist í fjármálageiranum á þeim tíma en að í staðinn mér yrði umbunað með hlutdeild í árangri nýs banka. Í þessu samhengi var mér boðið að öðlast rétt á að kaupa 300 milljón hluti á sama gengi og stofnhlutafar nutu – genginu einum – á þrem árum. Ef bankinn gengi vel þá myndi hlutaféð vaxa í verði og ég hagnast á því. Þannig væru hagsmunir mínir beintengdir hagsmunum bankans. Jafnframt var mér tjáð að stofnað yrði félag sem væri í umsjá bankans sem ætti hlutabréfin og til að fjármagna kaupinn yrðu félaginu útveguð erlend lán, annars vegar frá Askar Capital og hins vegar frá einum viðskiptabankanna og öll bréfin lögð að veði. Að þrem árum liðnum myndi félagið endurgreiða lánið með þeim vöxtum sem tíðkast á markaði. Til að fjármagna endurgreiðslu lánanna gæti ég t.d. selt bréfin og vonandi hagnast ef þau yrðu meira virði en lánin. Til að stofna félagið þyrfti ég að reiða fram 500 þúsund krónur. Það er skemmst frá því að segja að ég tók boðinu.

Í júlí síðastliðnum fór forsætisráðherra fram á það við mig að ég yrði sérstakur tímabundinn efnahagsráðgjafi hans og varð ég við þeirri beiðni. Þegar ljóst varð að ég myndi skipta um starfsvettvang tók ég þá ákvörðun að selja félagið sem stofnað var um hlutabréfin aftur til baka. Með því væri ég hafin yfir þá augljósu gagnrýni að í störfum mínum fyrir forsætisráðherra myndu möguleg fjárhagsleg hagsmunatengsl flækjast fyrir mér. Auk þess sem ég var að hverfa frá Askar Capital einu og hálfu ári áður en réttur minn til að eignast bréfin var liðinn. Lýsti ég í framhaldinu yfir opinberlega að ég hefði ekki lengur fjárhagslega hagsmuni af fyrrum tengslum mínum við Askar Capital. Söluverðið félagsins var 500 þúsund krónur og tapaði ég því hvorki né hagnaðist á þessum viðskiptum né var greiddur til mín arður af bréfunum. Þess má geta að bankinn er einkahlutafélag og hefur aldrei verið á hlutabréfamarkaði,“ skrifar Tryggvi Þór á bloggsíðunni. 

Með þessu segist hann hafa gert nær fullra grein fyrir fjárhagslegum tengslum sínum við atvinnulífið.  „Ég segi nær fulla grein vegna þess að með konu minni á ég 116 hluti í fyrirtækinu DeCode Genetics og er virði þeirra innan við 10 þúsund krónur í dag,“ skrifar Tryggvi Þór ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert