Þingmenn Sjálfstæðisflokks gagnrýndu harðlega í upphafi þingfundar í dag, að frumvarp um breytingu á stjórnarskránni væri snemma á dagskrá þingfundar í dag en aftar á listanum væru frumvörp, sem vörðuðu bráðavanda heimila og fyrirtækja.
Vildu þingmennirnir frekar, að stjórnskipunarlögin yrðu rætt á morgun þannig að hægt væri að ræða hin frumvörpin, sem sjálfstæðismenn styðja flest, strax. Sjálfstæðisflokkurinn stendur ekki að frumvarpinu um stjórnskipunarlögin og er fyrirsjáanlegt að umræðan um það verður löng en hún hófst á föstudag.
Þingmenn Samfylkingarinnar og VG lögðu hins vegar áherslu á að rætt yrði um stjórnskipunarfrumvarpið í dag. Bent var á að í frumvarpinu væru tillögur um miklar umbætur í stjórnskipunarmálum og atvinnumálum, m.a. þjóðareign á auðlindum Íslands.