Vopnað rán var framið í söluturninum „Allt í einu“ í Jafnaseli í Seljahverfi í Reykjavík fyrr í kvöld. Einn maður réðst inn í söluturninn og ógnaði starfssstúlku, sem var á vakt, með hnífi. Hann komst undan með nokkra fjármuni undir höndum.
Tvær stúlkur voru við störf í söluturninum. Önnur þeirra var í afgreiðslunni en hin í eldhúsinu. Að sögn Guðlaugs Guðjónssonar, eiganda söluturnsins, var maðurinn búinn að verja nokkrum tíma í söluturninum og beið færis í spilakassa. Það var því enginn viðskiptavinur nærri þegar ránið átti sér stað.Guðlaugur segir afgreiðslustúlkuna hafa orðið frekar skelkaða og var henni boðin áfallahjálp.
Lögreglan var fljót á staðinn eftir að eftir henni var óskað og tók skýrslu af stúlkunum. Undir venjulegum kringumstæðum hefði myndavélakerfi söluturnsins verið í gangi en fyrir þremur dögum fór rafmagnið af. Guðlaugur segist hafa trassað að setja kerfið aftur í gang. Sagðist hann harma það enda búinn að vera með rekstur þarna í fimmtán ár og án þess að nokkuð þvíumlíkt hafi komið upp á.