Fjórtán þúsund heimili eða átján prósent allra fjölskyldna eiga minna en ekki neitt þótt ekki séu tekin með í reikninginn yfirdráttarlán, bílalán og skuldir eða eignir hjá Lífeyrissjóðum.
Þetta kom fram í máli forsætisráðherra á blaðamannafundi eftir hádegið en þetta er lagt til grundvallar aðgerðum til bjargar heimilunum í landinu.
Ríkisstjórnin ætlar að gera fólki í fjárhagserfiðleikum kleift að breyta gengislánum í hefðbundin lán, hækka vaxtabætur um 25 prósent en þær skatttekjur sem ríkissjóður fær af útleystum séreignasparnaði á að hrökkva fyrir því. Þá er meiningin að ganga lengra í greiðsluaðlögun en gert er í því frumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu og láta það einnig ná til til fasteignaveðlána.Verið er að skoða hvort veita eigi Íbúðalánasjóði heimild til að lána fólki til að greiða upp Íbúðalán hjá bönkum og sparisjóðum.
Formenn stjórnarflokkanna saka Sjálfstæðisflokkinn um að standa fyrir málþófi á Alþingi og hindra að mikilvæg mál fyrir heimilin komist í gegnum þingið en þau taka gildi strax við samþykkt.