Atli Gíslason, alþingismaður, gagnrýnir í opnu bréfi, sem birt er á vefnum eyjum.neti í dag, að Baldvin Johnsen, fjárreiðustjóra Ísfélagsins, skuli hafa verið sagt upp störfum fyrir að hafa farið út fyrir heimildir í störfum sínum hvað varðar svonefnda afleiðusamninga eða gjaldeyrisskiptasamninga. Vill Atli að stjórn Ísfélagsins biðji Baldvin afsökunar.
Ægi Páli Friðbertssyni, framkvæmdastjóra Ísfélagsins og Baldvin var sagt upp störfum í síðustu viku. Baldvin sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist ekki hafa haft endanlegt vald til að taka ákvarðanir þegar kom að gerð þessara samninga og því hafi hann ekki getað farið fram yfir neinar heimildir í þeim efnum.
Atli segir í opna bréfinu að Herði Óskarssyni, yfir- og ábyrgðarmanni Baldvins, hafi einhverra hluta vegna ekki verið sagt upp. „Mér er sagt að þar hafi tengsl við Sjálfstæðisflokkinn ráðið en ég neita að trúa því. Í fararbroddi þessara uppsagna fer Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélagsins og einn af forvígismönnum nýfrjálshyggju Sjálfstæðisflokksins, sem almenningur sýpur nú seyðið af. Hann hefur í krafti áhrifa sinna innan Sjálfstæðisflokksins og annarra valdastofnana íslensks samfélags síðastliðin 18 ár haft fulla innsýn, vald og eigendaafskipti í íslenska einkabankakerfinu, sem nú er gjaldþrota. Ég held því fram að hann hafi mátt og átt að sjá fyrir bankahrunið og vitað eða mátt vita allt um þá gjaldeyrisskiptasamninga sem framkvæmdastjóri, fjármálastjóri og fjárreiðustjóri Ísfélagsins gerðu í þágu félagsins og höfðu gert lengi án nokkurra athugasemda frá stjórn félagsins," segir Atli.
Hann bætir við, að nú hafi komið fram upplýsingar um að einkabankarnir hafi tekið afstöðu gegn íslensku krónunni en ráðlagt á sama tíma útgerðum og fiskvinnslufyrirtækjum að taka afstöðu með krónunni. „Er Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson að búa til stöðu gegn skilanefndum gjaldþrota bankanna og nýju bönkunum á kostnað heiðarlegra fjölskyldna í Eyjum?" spyr Atli síðan.