Íbúðalánasjóður var langstærsti innstæðueigandi í fjárfestingarbankanum Straumi, sem yfirtekinn var af Fjármálaeftirlitinu í gærmorgun. „Ég gef það ekki upp nákvæmlega, enda erum við ekki vön að gera það, en þetta skiptir milljörðum,“ segir Guðmundur Bjarnason, forstjóri sjóðsins. Mögulegt tap ríkisins vegna innstæðna í Straumi gæti því orðið tilfinnanlegt, hvar í ríkisreikningum sem það hafnar á endanum, dugi eignir ekki fyrir innstæðum.
„Samkvæmt áhættustýringu ber okkur að hafa til reiðu ákveðið fjármagn til að svara skuldbindingum sjóðsins vegna afborgana af okkar lánum og eins fyrir væntanleg útlán. Þetta lausafé ávöxtum við á markaði, í fjármálastofnunum, með ríkisbréfum eða í seðlabanka eftir atvikum. Hluti af því var í Straumi. Þar áttum við hagsmuna að gæta,“ segir Guðmundur.
Heimildir herma að lífeyrissjóðir hafi einnig verið stórir innstæðueigendur í Straumi, en ekki náðist í forsvarsmenn landssamtaka þeirra í gærkvöldi til að staðfesta það. Hjá starfsmönnum Straums var borið við bankaleynd um hverjir væru í hópi innstæðueigenda, en kunnugir segja ÍLS hafa verið langstærstan þeirra. Reynir Vignir, formaður skilanefndar Straums, segir að verið sé að taka upplýsingar um þetta saman fyrir nefndina. Hann vildi ekki tjá sig frekar um þetta í gærkvöldi.