Neytendastofa hefur tekið þá ákvörðun að Halldór Guðmundsson, fyrrum starfsmaður Hans Petersen hafi brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með því að nýta sér trúnaðarupplýsingar um birgja Petersen ehf., félags sem tók við rekstri hluta starfsemi Hans Petersen, í atvinnuskyni og án heimildar forráðarmanna Petersen.
Í starfi sínu hjá Petersen öðlaðist Halldór upplýsingar um birgja Petersen sem hann síðar nýtti sér til að ná viðskiptum birgja Petersen í nýstofnað fyrirtæki sitt.
Í erindi Petersen kemur fram að vörustjóri prentlausna hjá fyrirtækinu, Halldór Guðmundsson, hafi með tölvupósti tilkynnt um uppsögn sína, þann 8. maí 2008. Með bréfi Petersen, dags. 21. ágúst 2008, var leiðrétt sú staðreyndavilla að Halldór tilkynnti um uppsögn sína um mánaðarmótin apríl – maí.
Ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú að Halldór, í félagi við annan starfsmann Petersen, hafi stofnað fyrirtækið DD í samkeppni við Petersen. Halldór hafi einnig tilkynnt Petersen að með þeim færi FotoWare umboðið á Íslandi, en Petersen hefur verið eini umboðsaðili FotoWare á Íslandi til margra ára. Síðar hafi Petersen fengið staðfest hjá höfuðstöðvum FotoWare í Noregi að DD hefði tekið við viðskiptum félagsins.
Að mati Petersen hefur Halldór framið trúnaðarbrot gegn félaginu. Brotið felist í því að hann hafi staðið að stofnun félagsins DD og nálgast birgja Petersen í þeim tilgangi að ná þeim í viðskipti yfir til DD og a.m.k. í einu tilviki náð samningi við birgja Petersen. Trúnaðarbrotið hafi verið framið á sama tíma og Halldór hafi starfað hjá Petersen.