Litlu mátti muna að fólk slasaðist í eldinum við Síðumúla vegna gassprenginga á þaki hússins þar sem eldurinn kom upp. Mjög greiðlega gekk að rýma húsið. Margvísleg starfsemi er í húsinu, meðal annars íslensk tónverkamiðstöð, hárgreiðslustofa og skrifstofur og verslunin Mótorsport.
Þorvaldur Geirsson varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir að eldurinn hafi kviknað þegar menn hafi verið að breiða dúk á þakið. Margir gaskútar voru á þakinu og því mönnum í nágrenninu mikil hætta búin. Þegar slökkviliðið kom á staðinn höfðu mennirnir náð að forða sér niður en sendur var körfubíll upp til öryggis.
Greiðlega gekk að slökkva eldinn og steypt plata er milli hæða svo tjónið á neðri hæðum er lítið. Fjöldi fólks var í húsinu en Neyðarlínan hringdi í alla og þegar slökkvilið kom á staðinn streymdi fólk út úr húsinu. Efsta hæðin er ónýt en talið er að neðri hæðir hafi að mestu sloppið. Óvíst er þó með vatnstjón.