Alþingismenn ræddu til að verða eitt í nótt um frumvarp ríkisstjórnarinnar um útgreiðslu séreignarsparnaðar.
Það voru nær eingöngu sjálfstæðismenn, sem ræddu um frumvarpið og sökuðu stjórnarliðar þá um að vera með málþóf til að koma í veg fyrir að frumvarp um stjórnskipunarlög kæmist á dagskrá. En að því frumvarpi standa allir þingflokkar nema Sjálfstæðisflokkur.
Þessu vísuðu sjálfstæðismenn á bug og sögðu að fram færi nauðsynleg og efnisleg umræða um frumvarp sem hefði augljósa galla.
Á endanum fór það svo að stjórnskipunarlagafrumvarpið var ekki rætt í nótt en það er á dagskrá á þingfundi, sem hefst klukkan 13:30 í dag.