Þúsundir heimila skulda meira en þau eiga

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon á blaðamannafundi.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon á blaðamannafundi. mbl.is/Ómar

Um 14 þúsund heimili, eða 18% allra heimila í landinu, eru komin með neikvæða eiginfjárstöðu, það er þau skulda meira en þau eiga. 20,6% heimila eru með eiginfjárstöðu sem er á bilinu núll til fimm milljónir. Alls eru því um 30 þúsund heimili í landinu með neikvæða eiginfjárstöðu eða eru á leiðinni í þá stöðu.

Þetta kom fram á blaðamannafundi, sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, héldu í dag eftir ríkistjórnarfund, þar sem m.a. var rætt um aðgerðir fyrir einstaklinga sem eru í greiðsluvanda.

Jóhanna sagði að bráðabirgðaniðurstaða lægi fyrir um fjárhagsstöðu um 80 þúsund einstaklinga, að því frátöldu að enn vantaði upplýsingar um stöðu þeirra hjá lífeyrissjóðum, um bílalán og yfirdráttarlán.

Jóhanna segir að gengið verði endanlega frá aðgerðunum í vikunni. Aðgerðirnar eru m.a. fyrir fólk sem er í erfiðleikum vegna myntkörfulána. „Þar erum við að ræða um greiðsluaðlögun gengistryggðra fasteignalána og mögulegt verði að breyta gengistryggðum lánum yfir í hefðbundin verðtryggingarlán," sagði hún.

Þá afgreiddi ríkisstjórnin tillögu um hækkun vaxtabóta þannig að hámarksupphæð greiddra vaxtabóta og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta munu hækka um 25%. „Það er gert ráð fyrir að það fjármagn sem við fáum af skatttekjum af séreignasparnaði verði nýtt til þessara hluta og þetta gæti verið um tveir milljarðar króna," sagði Jóhanna.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var ákveðið að koma á greiðsluaðlögun vegna fasteignaveðkrafna en frumvarp sem nú liggur fyrirþinginu nær eingöngu til samningskrafna. Jóhanna sagði að með þessu verði greiðsluaðlögunin mun víðtækari en fyrri ákvarðanir gerðu ráð fyrir þannig að hún nái einnig til fasteignaveðlána.

Ríkisstjórnin er einnig að vinna að samkomulagi við Samtök fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóði um að öll greiðsluerfiðleikaúrræði Íbúðalánasjóðs nái skilyrðislaust til þeirra sem eru í viðskiptum við aðra en ríkisbankana. Jóhanna segist vonast til að gengið verði frá þessu samkomulagi á næstu dögum. Hún segir að til þessa hafi eingöngu verið um tilmæli frá ríkisstjórninni til lánastofnana að ræða, það hafi ekki gengið sem skyldi í öllum tilvikum og núna verði frá þessu með samkomulagi þanni gða ljóst verði fólk fái sömu úrræði hjá öðrumlánastofnunum og það fær hjá Íbúðalánasjóði.

„Við erum líka að skoða nýjan lánaflokk hjá Íbúðalánasjóði en það eru endurfjármögnunarlán, sem heimila Íbúðalánasjóði að veita einstaklingum íbúðalán til að greiða upp íbúðalán hjá bönkum og sparisjóðum," sagði forsætisráðherra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka