Björgunarsveitarmenn úr Árborg, Þorlákshöfn og Hveragerði vinna nú að því að sækja stúlku í Reykjadal ofan Hveragerðis sem meiddist á göngu og talið er að hafi mjaðmarbrotnað. Þetta kemur fram á fréttavefnum Sunnlendingi.
Að sögn lögreglunnar á Selfossi er þess nú beðið að þyrla Landhelgisgæslunnar komi á staðinn til að flytja stúlkuna á slysadeild Landsspítalans, þar sem hún er stödd langt inni í dal þar sem bratt er, snjór yfir öllu og erfitt yfirferðar. Ekki er vitað með vissu hvernig slysið bar að.
Aðeins nokkrir dagar eru síðan félagar í björgunarsveitunum þremur komu fótbrotinni konu til aðstoðar á svipuðum slóðum.