Aðgengi við Geysi ábótavant?

Geysir í Haukadal umkringdur ferðamönnum.
Geysir í Haukadal umkringdur ferðamönnum. mbl.is/RAX

Breskur ferðamaður handleggsbrotnaði illa við Geysi á laugardaginn. Leiðsögumaður, sem fylgdi manninum, segir að allt of algengt sé að erlendir ferðamenn slasist á helstu ferðamannastöðum landsins. Enginn landvörður er á Geysissvæðinu á veturna.

Enginn landvörður á veturna

Frá þessu segir á vef Félags leiðsögumanna. Enginn landvörður er á Geysissvæðinu á veturna og enginn starfar við að sjá um að öryggi og aðgengi á svæðinu sé tryggt. Að sögn Diðriks Haraldssonar, verslunarstjóra í þjónustumiðstöðinni við Geysi, sjá starfsmenn verslunarinnar og hótelsins stundum um að ryðja og hreinsa svæðið þegar þörf er á. Það sé þó ekki gert á markvissan hátt.

Hólmfríður Sigvaldadóttir leiðsögumaður var í ferð með ferðamanninum sem slasaðist. Hún segir að aðgengi og öryggi á helstu ferðamannastöðum landsins sé mikið áhyggjuefni leiðsögumanna. „ Á hverjum einasta vetri dettur einhver og slasast illa,” segir Hólmfríður. „Við erum að reyna að selja landið okkar. Er ekki annars verið að segja að ferðamennskan eigi að bjarga okkur úr krísunni?”

En er fólk ekki varað við aðstæðum? „Við verðum að gera okkur grein fyrir að það eru ekki allir vanir því að ganga í hálku. Auðvitað erum við úti í náttúrunni og ættum að búa okkur í samræmi við það.”

Erfitt að gera kröfur um útbúnað

Hólmfríður segir að leiðsögumenn viti oft ekkert hvers konar aðstæður bíða þeirra þegar þeir koma með ferðamannahópa á fjölsótta ferðamannastaði. „Að vetrarlagi vara ég fólk alltaf við. En ég hef a.m.k.fjórum sinnum lent í því að ferðamenn á mínum vegum hafi dottið og brotnað illa, til dæmis þríökklabrotnaði kona við Geysi fyrir nokkrum árum.” Hólmfríður segir að leiðsögumenn og ferðskrifstofur geri almennt ekki kröfur til ferðamanna um útbúnað þegar verið er að fara á staði á borð við Geysi og bendir á að fjölmargir erlendir og innlendir ferðamenn fari þangað á eigin vegum.

Erfitt að draga einhvern til ábyrgðar

Umhverfisstofnun sér um landvörslu á Geysissvæðinu yfir sumartímann. Ólafur Arnar Jónsson, deildarstjóri hjá stofnuninni, segir að enginn haldi utan um aðgengismál á svæðinu yfir vetrartímann. „ Það er enginn skilgreindur umsjónaraðili á þessu svæði.” Ólafur segir að vissulega megi bæta aðgengi á svæðinu, en bendir á að erfitt sé að draga einhvern til ábyrgðar, ábyrgðin hljóti fyrst og fremst að hvíla á viðkomandi ferðamönnum. „Ferðaþjónustuaðilar ættu auðvitað að útskýra fyrir fólki hvernig það á að útbúa sig,” segir Ólafur og bendir á að bæði Umhverfisstofnun og Slysavarnarfélagið Landsbjörg hafi gefið út bæklinga á fjölmörgum tungumálum um öryggi ferðamanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert