Kerfishrun sem grípa átti fyrr inn í

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra kynnti skýrslu um áhættumat Íslands ásamt Val …
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra kynnti skýrslu um áhættumat Íslands ásamt Val Ingimundarsyni mbl.is/RAX

Ljóst er að efnahagslegur veikleiki, samdráttur í atvinnulífi, skert lífskjör og niðurskurður á ýmsum þjóðfélagssviðum munu hafa mikil áhrif á íslensk öryggismál í náinni framtíð.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í áhættumatsskýrslu sem kynnt var á blaðamannafundi með Össurri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra í utanríkisráðuneytinu. Skýrslan var unnin af þverfaglegum starfshópi sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, skipaði í október árið 2007, undir formennsku Vals Ingimundarsonar prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Starfshópurinn telur ennfremur að milda hefði mátt áhrif bankahrunsins hér á landi ef viðbragðsáætlanir hefðu verið virkjaðar fyrr og álagspróf bankanna verið raunsærri. Um kerfishrun hefði verið að ræða og grípa hefði þurft mun fyrr inn í atburðarásina til að afstýra því.

„Efnahagshrunið hefur veikt innviði íslensks samfélags og grafið undan öryggis þess í víðum skilningi. Það leiddi til víðtæks efnahagslegs og félagslegs óöryggis og olli tímabundið pólitískum óstöðugleika. Jafnframt verður erfiðara að fjármagna ýmis konar starfsemi sem lýtur að öryggis- og varnarmálum,“ segir ennfremur í skýrslunni, sem Össur og Valur kynntu á blaðamannafundinum.

Í skýrslunni er fjallað um alþjóðlega áhættuþætti sem hafa víðtæk samfélagsáhrif og geta því valdið kerfishruni. Til þeirra teljast efnahagsógnir, farsóttir, náttúruhamfarir, hernaður, beiting gereyðingarvopna og hryðjuverk. Einnig er sjónum beint að skipulagðri glæpastarfsemi og mansali en þessir þættir eru í skýrslunni sagðir grafa undan samfélagsöryggi, öryggi einstaklinga og réttarríkinu. Þá eru teknir fyrir þættir sem snerta öryggi grunnvirkja og loft- og landhelgi, netöryggi, öryggi orkukerfisins, borgaralegt flugöryggi, siglingaöryggi og mengunarvarnir, matvæla- og vatnsöryggi, vegaöryggi og fjarskiptaöryggi.

Starfshópurinn telur engar vísbendingar um að hernaðarógn muni á næstu árum steðja að Íslandi. Bent er á að yfirstandandi efnahagskreppa sé sú dýpsta frá kreppunni miklu á fjórða áratug 20. aldar. Ekki sé unnt að útiloka að hún hafi ófyrirséðar pólitískar og hugmyndafræðilegar afleiðingar í líkingu við hana, ekki síst í ríkjum þar sem lýðræðisstofnanir séu veikar.

Stofnuð verði neyðaraðgerðastjórn stjórnvalda

Í skýrslunni eru lagðar fram nokkrar ábendingar varðandi stefnumótun í öryggismálum. Talið er að marka þurfi skýra þjóðaröryggisstefnu sem taki mið af útvíkkaðri skilgreiningu öryggis. Taka þurfi tillit til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuflokka og einnig til samþættingar og innri tengsla öryggisþátta. Lagt er til að komið verði á neyðaraðgerðastjórn stjórnvalda sem hefur yfirsýn yfir hvers konar neyðarástand.

Jafnframt telur starfshópurinn að skilgreina þurfi betur stöðu varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna í íslenskum öryggismálum í ljósi brottfarar Bandaríkjahers árið 2006. Einnig þurfi að endurskoða varnaráætlun Bandaríkjamanna fyrir Ísland á neyðartímum. Þá segir í skýrslunni að endurnýja þurfi umræðu um stöðu Íslands í NATO og framlag Íslendinga til bandalagsins.

Valur Ingimundarson, er formaður starfshóps sem vann skýrsluna..
Valur Ingimundarson, er formaður starfshóps sem vann skýrsluna.. mbl.is/Þorkell
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert