Blaðamannafélag Íslands mótmælir harðlega nýlegum dómi Hæstaréttar þar sem blaðamaður Vikunnar er dæmdur í háar fjársektir vegna dómsmáls sem Ásgeir Davíðsson veitingamaður á Goldfinger höfðaði. Í dómnum er blaðamaður talinn bera ábyrgð á ummælum sem staðfest er að höfð eru rétt eftir viðmælanda blaðsins, að því er segir í tilkynningu.
„Ásgeir Davíðsson og lögmaður hans stefndu í héraði, bæði Björk Eiðsdóttur og Elínu Arnardóttur ritstjóra Vikunnar og Lovísu Sigmundsdóttur sem var viðmælandi blaðsins en hún starfaði áður sem nektardansmey á staðnum Goldfinger sem er í eigu Ásgeirs. Málinu gegn Lovísu lauk hinsvegar með sátt áður en dómur féll. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að viðmælandi Vikunnar bæri ábyrgð á ummælum sínum. Þar sem fallið hefði verið frá kröfum á hendur henni bæri að sýkna blaðamanninn. Niðurstaða Hæstaréttar er hinsvegar þveröfug. Hún er sú að skjóta sendiboðann og skilja þar með gervalla blaðamannastéttina eftir í algerri réttaróvissu.
Ljóst er að þessi nálgun Hæstaréttar breytir verulega starfsumhverfi blaðamanna og möguleikum þeirra á því að fjalla um umdeild samfélagsmál.
Blaðamannafélag Íslands ætlar að láta skoða það hvort efni séu til að fara með þetta mál til Mannréttindadómstólsins í Strassborg enda brýnt að blaðamenn viti hvort það sé réttmæt niðurstaða að blaðamenn beri ábyrgð á öllu því sem viðmælendur þeirra segja. Þá þurfa blaðamenn að vita hvort þessi túlkun Hæstaréttar á við um alla miðla. Hvað með beinar útsendingar til dæmis? Hver er þá ábyrgur?"