Félag um foreldrajafnrétti hefur sent frá sér yfirlýsingu þar skorað er á þingmenn að stöðva frumvarp frá menntamálanefnd sem er á dagskrá þingsins í dag. Frumvarpið fjallar um rétt forsjárlausra foreldra til upplýsinga um börnin sín frá skólum og leikskólum og segir í tilkynningunni að „Þar virðist sem eigi að hnykkja á því óréttlæti að íslenskir forsjárlausir foreldrar eigi ekki rétt á þeim skriflegu upplýsingum sem til eru um eigin börn í skólakerfum.“
„Þetta er með eindæmum og þekkist hvergi í okkar nágrannaríkjum,“ segir ennfremur í tilkynningunni. „Hvernig má það vera að foreldri sem hefur barnið sitt hjá sér í 4-5 daga aðra hvoru viku, fær ekki aðgang að Mentor - má ekki fá stundatöflu barnsins síns - nema munnlega. Hér er verið að hindra hlutverk foreldra og enginn gaumur gefinn að því að 30-40% umgengnisforeldra eru forsjárlausir á Íslandi, trúlega hvergi hærra hlutfall en hér. Á sama tíma er umgengni stöðugt vaxandi.
Hér er vegið að grundvallar mannréttindum barna og foreldra. Í stað þess að leiðrétta þetta óréttlæti þá virðist þingið í dag ætla að hnykkja sérstaklega á þessu fordæmalausa broti á réttindum foreldra. Nýtum tækifærið og leiðréttum þá skekkju sem kom inn í barnalögum með því að tiltaka skýrt í lögum um leikskóla og grunnskóla að allir foreldrar eigi rétt á skriflegum upplýsinum. Seinna meir má síðan endurskoða viðkomandi grein í barnalögum, sem er mjög óljós en stjórnsýslan hefur ákveðið að túlka mjög þröngt.“