Líffræðilegur fjölbreytileiki á í vök að verjast á Norðurlöndum, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skýrslu sem Norræna ráðherranefndin hefur látið gera. Samkvæmt henni hafa svæði með verðmætri náttúru minnkað á Norðurlöndum samhliða því að landbúnaður, samgöngukerfi og byggð breiða úr sér.
Í skýrslunni kemur fram að dregið hafi hratt úr líffræðilegum fjölbreytileika á Norðurlöndum síðan 1990 og að staðan sé nú sú að Norðurlönd ná varla alþjóðlegum markmiðum um að stöðva rýrnun líffræðilegs fjölbreytileika fyrir árið 2010.
Rannsóknin sýnir afturför í öllum norrænu ríkjunum varðandi engi og mýrar. Skóglendi hefur þó sums staðar stækkað og það getur haft góð áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika.
Niðurstaða skýrslunnar er því sú að aðgerða og endurskoðunar á náttúruvernd á Norðurlöndum sé þörf eigi að ef takast að snúa þróuninni við. Jafnframt að nauðsynlegt sé að samræma vöktun líffræðilegs fjölbreytileika.
Fram kemur í frétt frá Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni að líffræðilegur fjölbreytileiki sé hér skilgreindur sem fjöldi lífvera af öllum tegundum auk þeirra vistkerfa sem þær lifa í.
Í skýrslunni er líffræðilegur fjölbreytileiki metinn með bæði eigindlegum og megindlegum mælikvörðum. Eigindlegi hlutinn nær til fjölda tegunda á tilgreindu landsvæði, til dæmis fugla eða hlutfalls gamalla trjáa í skógum. Einnig hér sýnir samanburðurinn neikvæða þróun.